Fréttir eftir árum


Fréttir

Rannsóknastarf HR hefur stóreflst á áratug

28.2.2019

Eitt af mörgum verkefnum rannsóknarþjónustu HR er að gefa árlega út skýrslu um árangur skólans í rannsóknum og var sú fyrsta gefin út árið 2007. Með því að bera saman elstu og nýjustu skýrsluna má sjá eftirfarandi:

  • Heildarfjöldi birtinga í nafni háskólans á ritrýndum vettvangi hefur fjórfaldast á árunum 2007-2018. Fjöldi birtra ritrýndra greina í vísindatímaritum hefur einnig aukist jafnt og þétt, svo og hlutfall birtra greina í svokölluðum ISI-tímaritum sem þýðir að þær er að finna í stærsta alþjóðlega gagnagrunninum yfir greinar í ritrýndum fræðiritum.
  • Birtingar á ritrýndum vettvangi á hvern akademískan starfsmann hafa aukist á árunum 2007 til 2018 úr 1,1 í 3,9 birtingar.
  • Á árunum 2007-2018 hefur heildarstyrkupphæð úr innlendum samkeppnissjóðum til HR fimmfaldast, eða úr um 70 m.kr. árið 2007 í um 362 m.kr. árið 2018.
  • Fjöldi birtinga í nafni HR á ritrýndum vettvangi eru að stærstum hluta á ensku, eða um 96% á árinu 2018.

 

Þessi árangur Háskólans í Reykjavík var staðfestur á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims árið 2019 en þar var HR í þriðja til sjötta sæti hvað varðar áhrif rannsókna, ásamt Stanford, MIT og Brandeis háskólunum. Áhrif rannsókna eru metin út frá meðalfjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum.

Skýrslan Styrkur HR í rannsóknum er yfirlit yfir birtingar akademískra starfsmanna HR sem eru með rannsóknarskyldu og taka þátt í árlegu rannsóknarmati skólans. Eingöngu er um að ræða birtingar á ritrýndum vettvangi (e. peer-reviewed outlets) og birtingar í nafni skólans (e. RU-affiliated). Í skýrslunni má einnig finna yfirlit yfir öflun styrkja til rannsókna úr samkeppnissjóðum. Skýrslan er gefin út bæði á íslensku og ensku og er hún aðgengileg á vef HR: https://www.ru.is/rannsoknir/um/akademiskur-styrkur/ og https://en.ru.is/research/ru-academic-strength/