Fréttir eftir árum


Fréttir

Rannsóknir hefjast á „skjálftariðu“

17.3.2021

Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, með stuðningi Landlæknis, Grindavíkurbæjar og fleiri aðila, eru að hefja rannsókn á hreyfiveiki í tengslum við yfirstandandi jarðskjálftahrinu á Reykjanesi, í nýju Hreyfiveikisetri í HR. Óskað er eftir þátttakendum í rannsóknina sem hafa upplifað ógleði, einkenni nokkurs konar sjóriðu eða önnur líkamleg ónot vegna jarðskjálftanna. Ekki er vitað til þess að „skjálftariðu“ hafi verið lýst áður, eða hún rannsökuð, í tengslum við langvarandi hrinu smárra jarðskjálfta, líka þeirri sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga.

Rannsóknir hefjast á „skjálftariðu“ í HR

Rannsóknin er hluti af viðamiklum rannsóknum á hreyfiveiki sem unnið er að í Hreyfiveikisetrinu.

Í rannsóknunum verður notast við fullkominn tækjabúnað sem nýlega var tekinn í notkun í Hreyfiveikisetri HR, HÍ og HA. Um er að ræða hreyfanlegan pall, þar sem hægt er að líkja eftir aðstæðum á sjó, við akstur, flug og fleira. Búið hefur verið til nýtt líkan sem líkir eftir örlitlum hreyfingum jarðskorpunnar í hægum takti, líkt og íbúar Reykjaness hafa upplifað undanfarnar vikur. Á meðan þátttakendur í rannsókninni standa á pallinum er fylgst með lífeðlisfræðilegum breytingum með heila-, og vöðvalínuritum og hjartsláttarnema. Næmni þátttakenda fyrir sjóveiki verður einnig könnuð með sama búnaði sem þá er tengdur sýndarveruleika, þannig að viðkomandi upplifa sig á báti úti á sjó. Þátttakendur munu einnig svara almennum spurningalista um einkenni hreyfiveiki.

Skjalftarida-taeki

Vonast er til að rannsóknirnar varpi ljósi á líffræðilegar orsakir hreyfiveiki og geti leitt til betri meðferðar- og þjálfunarúrræða við henni.

Rannsóknin er hluti af viðamiklum rannsóknum á hreyfiveiki sem unnið er að í Hreyfiveikisetrinu, undir stjórn Paolo Gargiulo, prófessors við verkfræðideild og forstöðumanns Heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík og Hannesar Petersen, prófessors við Háskóla Íslands og læknis við Sjúkrahúsið á Akureyri. Vonast er til að rannsóknirnar varpi ljósi á líffræðilegar orsakir hreyfiveiki og geti leitt til betri meðferðar- og þjálfunarúrræða við henni.

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesi sem nú hefur staðið í um 3 vikur hefur kallað fram einkenni meðal íbúa á SV-horni landsins sem líkjast einkennum hreyfiveiki þ.e. sundl, svima, fölva og ógleði, höfuðverk, þreytu og höfga. Ástandið endurspeglar ekki hugarvíl heldur er það ræst af líkamlegum ferlum. Einkennin stafa líklegast af langvarandi hægum hreyfingum jarðskorpunnar sem trufla stöðustjórnun. Þá hreyfist undirlagið sem við stöndum á og er alla jafna hreyfingarlaust, í hægum sveiflum (0,1 – 0,5 rið) sem fléttast inn í hæga, náttúrulega stöðusveiflu uppréttra einstaklinga, sem er af svipaðri tíðni.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni geta skráð sig og svarað spurningalista hér .