Fréttir eftir árum


Fréttir

Rannsóknir vísindamanna Háskólans í Reykjavík áhrifamestar á heimsvísu

Efstur íslenskra háskóla og meðal 350 bestu háskóla í heiminum á lista Times Higher Education

3.9.2021

Á nýjum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims fyrir árið 2022, sem birtur var í gær, er Háskólinn í Reykjavík í efsta sæti í mati á hlutfallslegum áhrifum rannsókna, þriðja árið í röð. Áhrif rannsókna eru metin út frá fjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum. Þá er HR áfram efstur íslenskra háskóla á lista yfir bestu háskóla heims og heldur stöðu sinni í sæti 301-350.

 Þessi árangur kemur til af því að hér er frábært starfsfólk sem hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að efla rannsóknir og annað vísindastarf, samhliða öflugu gæðastarfi við uppbyggingu háskólanáms.

HR á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi 2022.

„Það er ekki hægt annað en að vera ánægð með stöðu HR á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi. Vísindafólk við háskólann er ótrúlega áhrifamikið á heimsvísu og af því erum við virkilega stolt. Þessi árangur kemur til af því að hér er frábært starfsfólk sem hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að efla rannsóknir og annað vísindastarf, samhliða öflugu gæðastarfi við uppbyggingu háskólanáms. Ég óska starfsfólki og nemendum HR innilega til hamingju með þetta,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, nýr rektor Háskólans í Reykjavík.

Háskólinn í Reykjavík í efsta sæti í mati á hlutfallslegum áhrifum rannsókna, þriðja árið í röð

Listi Times Higher Education yfir bestu háskóla heims er einn virtasti slíkur listi sem gefinn er út og til hans er mikið horft við mat á alþjóðlegu háskólastarfi. Hann byggir m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið. Áhrif rannsókna eru metin út frá upplýsingum frá Elsevier um rúmlega 108 milljón tilvitnanir í 14,4 milljón ritrýndar fræðigreinar, yfirlitsgreinar, bækur, bókakafla og ráðstefnurit, sem gefin hafa verið út síðustu fimm árin. Í einkunnagjöf THE fyrir tilvitnanir er jafnframt tekið tillit til fjölda starfsmanna við háskóla, mismunar á útgáfutíðni milli fræðigreina og fleiri slíkra atriða.