Fréttir eftir árum


Fréttir

Reikna einangrun, hanna lagnir og burðarvirki og velja veggþykktir

14.12.2016

Nemendur í byggingariðnfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík vörðu lokaverkefni sín fyrir stuttu. Að baki lokaverkefninu er heilmikil vinna en þar er gerð grein fyrir heildarhönnun húss: útliti byggingar, skipulagi, burðaþoli og lögnum.

Einstaklingsverkefni verður hópverkefni

Í fyrstu velja nemendur sér einstaklingsverkefni þar sem þeir velja hús og gera frumskoðun og hugmynd um útfærslu. Síðan eru myndaðir hópar og þá er farið í ýtarlega hönnun á bestu hugmyndinni úr hverjum hóp. Gerð er skýrsla sem gerir grein fyrir útfærslum og reikningum og svo teiknisett sem samanstendur af 35-40 teikningum en það segir aðeins til um vinnuframlagið í námskeiðinu.  

Viðamikið viðfangsefni

Með heildarhönnun er átt við að húsið er teiknað upp útlitslega og með innra skipulagi. Síðan er reiknað varmatap og valin einangrun út frá því. Út frá þessu er þá frumhannað allt hitakerfi í húsið. Teikna þarf burðarvirki hússins, valið byggingarefni, veggþykktir og ef steypt er þá eru gerðar járnateikningar. Þá er burðaþol frumhannað og taka þarf tillit til allra álagstilfellana. Allt lagnakerfi er frumhannað í húsið, þar með talið ofna- og hitalagnir, neysluvatnslagnir fyrir bæði heitt og kalt vatn og einnig fyrir það vatn sem fer frá húsinu, bæði skolp og dren. Útfærslur á ýmsum smáatriðum sem þarf að gera grein fyrir til að geta byggt hús eins og frágangur við glugga, hurðir og þök er hannað og teiknað upp.

Tveir leiðbeinendur og nemandi standa fyrir framan töflu með teikningum á

Gunnhildur Rán Gunnarsdóttir, einn nemendanna, með leiðbeinendunum Ágústi og Eyþóri.

Nota nýjustu kerfin

Teikningar eru unnar í tölvukerfinu Revit en það er svokölluð hlutbundin hönnun. Þá eru allir byggingarhlutar settir inn sem þrívíðir hlutir og húsið þannig kubbað saman. Þessi áhersla er í samræmi við aðferðir á vinnumarkaði en með þessari nýjustu tækni er allt að færast yfir svokallað BIM sem stendur fyrir Building Information Modeling. Þessi þróun hjálpar til við allan samlestur en bundin er mikil von við að það reynist  bæði gagnlegt og notendavænt við áframhaldandi viðhald og rekstur bygginganna.

Lokaverkefni_byggingaridnfraedi_3Dæmi um lokaverkefni í byggingariðnfræði.

Þurfa að svara fyrir hönnunina

Verkefnin eru unnið í samvinnu og undir eftirliti leiðbeinanda yfir eina önn, undir lokin er svo munnleg vörn. Hver og einn kynnir ákveðinn hluta sem dreginn er út og þarf síðan að svara og standa fyrir hönnun hópsins. Að halda munnlega kynningu og vörn er virkileg áskorun en hún er metin sem gagnleg æfing fyrir framtíðina. Leiðbeinendur voru Ágúst Þór Gunnarsson, byggingarfræðingur hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík og Eyþór Rafn Þórhallsson, dósent við tækni- og verkfræðideild HR. Það var mat nemenda að verkefnin hefðu verið afar krefjandi en að sama skapi hafi vinnan verið skemmtileg. Samtals voru 15 nemendur í námskeiðinu að þessu sinni.

Lokaverkefni_byggingaridnfraedi_2

Jörundur Ragnar Blöndal kynnir sitt verkefni.

Um byggingariðnfræði

Byggingariðnfræði er ein fjögurra brauta í iðnfræði sem kennd er við tækni- og verkfræðideild HR. Byggingariðnfræði er kennd í fjarnámi og er sniðin að þeim sem eru á vinnumarkaði hvar sem er á landinu eða jafnvel erlendis. Starfssvið byggingariðnfræðinga er fjölbreytt; þeir starfa hjá verktakafyrirtækjum, á verkfræðistofum og við byggingaeftirlit eða sem stjórnendur á byggingastað. 

Lesa um byggingariðnfræði við tækni- og verkfræðideild HR