Fréttir eftir árum


Fréttir

Rými fyrir alla

9.12.2014

Íþróttaskóli Latabæjar var tilnefndur til Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands árið 2014. Nemendur við íþróttafræðisvið HR sjá um kennslu í skólanum í samstarfi við íþróttafélagið Fjörð í Hafnarfirði.

Einu sinni í viku hittist hópur 2-11 ára gamalla barna sem öll eru með þroska- eða hreyfihömlun í íþróttahúsinu í Setbergsskóla i í Hafnarfirði til að fara í leiki og leysa þrautir. „Mörg barnanna sem koma í íþróttaskólann hafa ekki fundið sig í öðru íþróttastarfi enda eiga oft önnur lögmál við þegar barn er með t.d. Downs-heilkenni, er blint, einhverft eða ofvirkt,“ segir Anna Þorsteinsdóttir, meistaranemi við íþróttafræðisvið HR og umsjónarmaður skólans. Nemendur HR sjá um framkvæmd og kennslu en íþróttafélagið Fjörður leggur til aðstöðu og rekstrarfé en formaður félagsins, Þór Jónsson, stóð að stofnun íþróttaskólans.

Íþróttaskóli Latabæjar„Markmið okkar er að útbúa leiki sem virka fyrir alla. Við notum grjónapúða mikið til að æfa jafnvægi og þrautir eins og að kasta og hitta á réttan stað. Einhverjir leikir henta einu barni en ekki næsta og það er reglan hér að það er bara í fínasta lagi. Hér eru engar strangar reglur um frammistöðu og foreldrarnir og börnin sjálf finna það að hér er afslappað andrúmsloft og rými fyrir alla að vera eins og þeir vilja og gera það sem þá langar til.“

Leikirnir eru til þess gerðir að auka hreyfigetu og samhæfingu barnanna. Anna, sem er í meistaranámi í íþróttaþjálfun og kennslu við HR, notar frítímann til að búa til leiki fyrir börnin. „Við lærum mikið í kennslufræði í kúrsum í háskólanum en það er allt öðruvísi en að kenna sjálfur og alveg ómetanlegt að fá að sjá um svona starf. Þetta er að vísu krefjandi stundum en mjög gefandi líka.“ Auk Önnu sjá fjórir aðrir nemendur á íþróttasviði HR um kennsluna.

Íþróttaskóli Latabæjar er ekki stór í sniðum; hann sækja um 30 börn einu sinni í viku. Anna segir starfið vera einstakt hér á landi. „Við höfum reynt eftir fremsta megni að hafa engin skráningargjöld svo að foreldrar beri engan kostnað og það hefur tekist hingað til, sem betur fer. Mér þykir afar vænt um tilnefninguna til Hvatningarverðlauna ÖBÍ og vonandi getum við gert starfið sýnilegra í framhaldinu og fengið til okkar fleiri börn.“

Anna ÞorsteinsdóttirEn af hverju Latibær? „Við fengum að vera í samstarfi við Latabæ þar sem álitið var að það geri starfið meira spennandi fyrir marga krakka. Við fengum semsagt að nota nafnið og svo fáum við reglulega heimsókn frá íþróttaálfinum sem er alltaf jafn vinsæll.“Anna Þorsteinsdóttir