Fréttir eftir árum


Fréttir

HR og HA í samstarf um nám í tölvunarfræði á Akureyri

16.3.2015

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri undirrituðu þann 12. mars sl. samstarfssamning um nám í tölvunarfræði sem hægt er að sækja við HA frá hausti 2015.

Námið er á ábyrgð og er kennt af kennurum tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, í samvinnu við kennara við Háskólann á Akureyri.  

Boðið verður uppá tveggja ára diplómanám í tölvunarfræði. Námið veitir góðan undirbúning fyrir upplýsingatæknistörf sem og fyrir áframhaldandi háskólanám. Aðeins þarf að bæta við einu ári til að ljúka BSc-gráðu í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, en einnig má nýta diplóma í tölvunarfræði sem undirstöðu fyrir annað nám í öðrum hvorum háskólanum.

Námið er á ábyrgð HR og nemendur er skráðir við þann skóla en sækja sitt nám við Háskólann á Akureyri þar sem faglegur umsjónarmaður námsins verður til staðar fyrir nemendur.  Námið er því blanda af staðar- og fjarnámi þar sem fyrirlestrar eru aðgengilegir á netinu en dæma- og verkefnatímar fara fram á staðnum undir umsjón kennara.

Skráning í námið fer fram á vef Háskólans í Reykjavík 

Haldinn var kynningarfundur um námsbrautina fimmtudaginn síðasta í Háskólanum á Akureyri og var hann afar vel sóttur. Þar kynntu Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Eyjólfur Guðmundsson rektor HA og Yngvi Björnsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR skipulag námsins og svöruðu spurningum gesta.

Samstarf HR og HAEyjólfur Guðmundsson, Yngvi Björnsson og Ari Kristinn Jónsson.

KynningarfundurKynningarfundur var haldinn í HA síðasta fimmtudag.