Samstarf íþróttafræðideildar HR og JSÍ
Íþróttafræðideild HR (HR) og Júdósamband Íslands (JSÍ) undirrituðu nýverið samstarfsamning vegna mælinga á landsliðsfólki Íslands í júdó til tveggja ára.
Markmið samstarfsins er að styðja JSÍ við að fylgjast með þróun afreksfólks í júdó og greina styrkleika og veikleika sem snúa að líkamlegu atgervi þess. Á sama tíma skapast tækifæri fyrir nemendur í íþróttafræði til að kynnast júdó-íþróttinni, hljóta þjálfun í mælingum á vettvangi og læra að miðla niðurstöðum svo hægt sé að nýta þær í þjálfun.
Á myndinni má sjá Hafrúnu Kristjánsdóttir, forseta íþróttafræðideildar, og Bjarna Skúlason, stjórnarmann í JSÍ, við undirritun samningins.
Hallur Freyr Sigurbjörnsson meistaranemi í íþróttavísindum og þjálfun mun hafa umsjón með mælingunum, undir handleiðslu starfsmanna íþróttafræðideildar HR og með aðstoð nemenda í íþróttafræði.
Myndin er tekin af vef Júdósambands Íslands.