Fréttir eftir árum


Fréttir

Samstarf við MIT um að skapa ný störf og efla hagvöxt með nýsköpun

31.5.2016

Háskólinn í Reykjavík og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið munu næstu tvö árin taka þátt í alþjóðlegu samstarfsverkefni með MIT-háskólanum í Bandaríkjunum sem miðar að því að skapa ný störf og efla hagvöxt á Íslandi með nýsköpun. 

REAP-verkefni MIT-háskólans (Regional Entrepreneurship Acceleration Program) er tveggja ára verkefni sem MIT hefur unnið með fjölda borga og svæða um allan heim til að styrkja samkeppnishæfni. Meðal borga og landsvæða sem hefur tekið þátt í fyrri verkefnum eru Skotland, Finnland, London, Katar, Peking og Suðvestur-Noregur. Verkefnið felst í ítarlegri greiningu á umhverfi fyrir frumkvöðla og nýsköpun á Íslandi og mun skila aðgerðaáætlun um hvernig megi auka samkeppnishæfni Íslands með nýsköpun. Þessi nálgun byggir á niðurstöðum rannsókna MIT á því hvaða þættir skipta mestu máli í því að drífa áfram nýsköpun. Nálgunin er einstök og hefur skilað raunverulegum framförum fyrir svæði sem áður hafa tekið þátt.

Myndin sýnir MIT háskólann

Fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, háskóla, fjármálageira og frumkvöðla sitja í stýrihópi verkefnisins og vinna með sérfræðingum MIT og aðilum frá öðrum svæðum sem tekin verða fyrir í verkefninu. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir samstarfið falla vel að stefnu háskólans sem leggur mikla áherslu á nýsköpun. „Aukin hagnýting hugvits verður grundvöllur samkeppnishæfni og lífsgæða á Íslandi í framtíðinni, eins og m.a. er bent á í skýrslu McKinsey frá 2012 um vaxtarmöguleika Íslands. Það er þess vegna mjög spennandi að hefja þetta samstarf við einn virtasta háskóla heims, sem þekktur er fyrir tækni, viðskipti og nýsköpun.“

Fulltrúi MIT, Fiona Murray, aðstoðarforseti fyrir nýsköpun hjá Sloan stjórnendaskólanum hjá MIT segir þá aðferðafræði sem notuð verður í verkefninu hafa nýst svæðum til að bæta umhverfið fyrir nýsköpunarfyrirtæki með því að nýta sérstöðu og forskot svæðanna. „Rannsóknaháskólar eiga sérstaklega mikilvægan þátt í að drífa nýsköpun og yfirfærslu þekkingar til nýrra fyrirtækja og gegna þannig lykilhlutverki í efnahagsþróun landsvæða. Fyrir fámennt land eins og Ísland gegnir Háskólinn í Reykjavík sérstaklega mikilvægu hlutverki í rannsóknum og viðskiptamenntun. Við hlökkum til að vinna með HR, ráðuneytinu og öðrum hagsmunaaðilum að framförum á íslensku nýsköpunarumhverfi.“  

Photo credit: Patrick Gillooly