Fréttir eftir árum


Fréttir

Samstarfsverkefni íslensku lagadeildanna staðfest

11.2.2016

Frá undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir (Bifröst), Ari Kristinn Jónsson (HR), Helga Jónsdóttir (ESA), Eyvindur G. Gunnarsson (HÍ) og Ragnhildur E. Þorsteinsdóttir (HA).

Keppa í Hæstarétti

Lagadeildir háskólanna á Íslandi og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) undirrituðu í gær samstarfssamning um EES- málflutningskeppnina. Keppnin verður haldin næsta haust og munu lokaúrslit hennar fara fram í dómsal Hæstaréttar Íslands í nóvember.

Nemendur fá dýrmætt tækifæri

Gunnar-Thor-Petursson„Hér í HR verður keppnin námskeið á meistarastigi sem verður metið til eininga,“ segir Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild HR og verkefnastjóri þessa nýja samstarfs. „Nemendur geta skráð sig í námskeiðið á haustönn 2016.“ Hann segir keppnina gefa nemendum tækifæri á að spreyta sig í málflutningi um EES-samninginn. „Laganemar fá tækifæri til að læra af reyndum sérfræðingum á þessu sviði og hvernig á að undirbúa og flytja mál á ensku fyrir dómstólunum í Lúxemborg. Þeir sem bera sigur úr býtum fá jafnframt tækifæri til að kynna sér stofnanir EES-samstarfsins í Brussel og dómstólanna í Lúxemborg.“

Margvísleg þjálfun í málflutningi hjá HR

ESA hefur staðið að sambærilegum keppnum í Noregi í samstarfi við Oslóarháskóla. Í Háskólanum í Reykjavík er lögð áhersla á þjálfun nemenda, meðal annars með keppnum af þessu tagi. Haldin er málflutningskeppni laganema ár hvert og nemendur fara utan til að taka þátt í alþjóðlegu Willem Vis og Jessup málflutningskeppnunum.

Sjá síðu lagadeildar á vefnum