Fréttir eftir árum


Fréttir

Sigruðu í fyrsta Hnakkaþoninu

26.1.2015

Nemendur Háskólans í Reykjavík tóku um helgina þátt í fyrstu útflutningskeppni sjávarútvegsins. Nemendur höfðu sólarhring til að setja fram áætlun um hvernig koma má ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni. Vinninsliðið fær að heimsækja stærstu sjávarútvegssýningu í Bandaríkjunum.

HnakkaþonÞau báru sigur úr býtum í fyrsta Hnakkaþoninu. Frá vinstri: Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Egill Sigurðarson, Helgi Már Hrafnkelsson, Rebekka Rut Gunnarsdóttir og Jóhanna Edwald.

Fara á stærstu sjávarútvegssýninguna

Keppnin var haldin í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 23. og laugardaginn 24. janúar og var opin öllum nemendum HR. Keppnin var samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík.

Egill Sigurðarson, Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Helgi Már Hrafnkelsson, Jóhanna Edwald og Rebekka Rut Gunnarsdóttir sigruðu í fyrsta Hnakkaþoninu en þau mynduðu þverfaglegt lið úr öllum akademískum deildum HR. Þau sækja í framhaldinu stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku sem fram fer í Boston í mars næstkomandi. Ferðin er í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Gerðu áætlun til 10 ára

Það var mat dómnefndar að vinningsliðið hefði sett fram heildræna lausn á meðal annars markaðsmálum, gæðamálum, flutningi vöru og flutningskostnaði. Auk þess hefðu þau sett fram metnaðarfulla áætlun til næstu 10 ára um hvernig auka mætti sölu þorskhnakka í Bandaríkjunum.

Í verkefninu þurfti að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna: frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana. Vert er að huga að sérstöðu íslenskrar vöru og með hvaða hætti má viðhalda henni og auka.

Dómnefnd skipuðu Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, Guðmundur Jónasson, deildarstjóri ferskfiskdeildar Iceland Seafood, Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR, Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskiptafræði HR og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Samstarfs- og styrktaraðilar keppninnar eru:

  • HB Grandi
  • Icelandair Group
  • Iceland Seafood International
  • Matís
  • Samherji
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi

Skoða myndir frá Hnakkaþoninu.