Fréttir eftir árum


Fréttir

Sigruðu í hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema

6.2.2018

Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands fór fram síðastliðinn laugardag á UTmessunni í Hörpu. Keppnin er ávallt vel sótt auk þess sem þáttur um hana er sýndur á RÚV. Í keppninni þurfa háskólanemar sem taka þátt að koma tæki frá upphafsreit yfir á endastöð og safna stigum og það lið sem hlýtur flest stig vinnur.

Það lið sem hlaut fyrsta sætið í keppninni í ár er skipað nemendum við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, þeim Jóni Sölva Snorrasyni, nema í hátækniverkfræði, Þórarni Árna Pálssyni, nema í rafmagnstæknifræði og Erni Hrafnssyni, nema í vélaverkfræði.

Þrír ungir menn standa í röð með verðlaunFrá vinstri: Örn Hrafnsson, Þórarinn Árni Pálsson og Jón Sölvi Snorrason.
Í ár var þrautin þannig að tækið átti að keyra áfram og ýta á takka vinstra megin. Við það helltust ~200 ml. af vatni úr röri fyrir ofan tækið sem það þurfti að fanga. Að því loknu var komið að því að fara yfir skurð og því næst að losa vatnið í trekt yfir mæliglasi, keyra yfir hraun sem var sett saman úr fínum sandi og steinum, og að lokum  að fara upp eftir neti og staðnæmast á palli.

„Lausn okkar fólst í að hafa bílinn einfaldan en sterkbyggðan,“ segir Þórarinn Árni. „Hann samanstendur af 7 DC-mótorum, einn á hverju hjóli og hinir fyrir griparm.“ Grind, griparmur og hjól voru hönnuð frá grunni fyrir keppnina og prentuð í þrívíddarprentara í HR. Þórarinn segir liðið hafa góða reynslu af verkefnavinnu og hafa haft gott skipulag að leiðarljósi. „Auk þess gerðum við ráð fyrir nægum straum til hjólanna svo hann gæri keyrt upp nánast hvað sem er.“

Myndin sýnir lítið rafknúið tækiTækið sem þeir félagar smíðuðu.

„Okkur finnst frábært að sú vinna sem við lögðum í verkefnið hafi skilað árangri og er staðfesting á því að skipulag og þrautseigja í verkefnalausnum skila sér á endanum.“

Liðið hlaut 400.000  krónur í verðlaun en það voru Marel  og Origo sem styrktu keppnina.

Á Facebook-síðu keppninnar má sjá myndband frá henni en tæki þeirra Arnar, Jóns og Þórarins fer á brautina á 1:59:00.