Sigruðu í lestrarkeppni Almannaróms og Mál- og raddtæknistofu HR
Hraunvallaskóli bar sigur úr býtum og Salaskóli varð í öðru sæti í flokki skóla með yfir 450 nemendur í Lestrarkeppni grunnskólanna sem Almannarómur og Mál- og raddtæknistofa Háskólans í Reykjavík stóðu fyrir nýverið. Í flokki skóla með færri en 450 nemendur varð Smáraskóli í fyrsta sæti og Grunnskólinn á Þórshöfn í öðru sæti.
Góð þátttaka var í keppninni og munar mikið um framlag grunnskólanema í söfnun raddsýna í gagnagrunn á síðunni samromur.is en alls lásu nemendur sigurliðs Hraunvallaskóla 50 þúsund setningar inn og nemendur Smáraskóla lásu 37.655 setningar.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er, ásamt Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, verndari Almannaróms. Guðni veitti sigurskólunum viðurkenningar við athöfn á Bessastöðum í dag. Auk fulltrúa skólanna eru á myndinni Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, og Jón Guðnason, forstöðumaður Mál- og raddtæknistofu.
Vilja tryggja sess íslenskunnar í stafrænum heimi
Lestrarkeppnin er liður í að safna raddsýnum á íslensku í opinn gagnagrunn sem þeir geta notað sem vinna að því að samþætta íslensku og hina stafrænu tækni þannig að tölvurnar skilji íslensku. Til að svo verði þarf meðal annars að tryggja að tæknin skilji raddir barna og unglinga sem í dag tala flest við sín tæki á ensku.
Þegar söfnun raddsýna lýkur verður gagnasafnið gefið út með opnu leyfi. Þeir sem vilja þróa lausnir fyrir íslenska tungu geta notað gagnasafnið endurgjaldslaust, til að mynda fyrir íslenskt raddstýrt viðmót í tækjum og tólum, lestrarþjálfun, rauntímatextun á sjónvarpsefni og rauntímaþýðingar.
Með þátttöku í lestrarkeppninni hafa grunnskólanemendur lagt sitt af mörkum til að kenna tölvunum að skilja íslensku og stuðla að því að málið okkar lifi áfram og eflist á tímum örra tæknibreytinga í stað þess að láta undan síga í stafrænum heimi framtíðarsamskipta.
Þess má geta að allir sem vilja geta farið á samromur.is og lagt söfnuninni lið.
Lesa meira
- „Gætum orðið leiðarljós annarra lítilla málsvæða“ - viðtal við Eydísi Huld Magnúsdóttur, nýdoktor við HR og meðlim máltæknihópsins.