Fréttir eftir árum


Fréttir

Sigruðu í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með flugvéladekkjaskeið

29.5.2018

Yfir 1200 hugmyndir frá 38 skólum víðs vegar af landinu bárust að þessu sinni í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík dagana 24. og 25. maí. 40 nemendur úr 5. - 7. bekkjum  komust í gegnum strangt matsferli þar sem uppfinningar þeirra voru metnar með tilliti til hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi. Þessir nemendur tóku svo þátt í vinnusmiðjunni í HR um helgina.

Fyrsta sætið hlutu þeir Guðjón Guðmundsson og Sölvi Páll Guðmundsson í Rimaskóla, með hugmynd sína að  flugvéladekkjaskeið. Í öðru sæti var Jóakim Uni Arnaldsson, Vesturbæjarskóla, með hugmynd að sturtuhandklæðaskápi og í þriðja sæti var Salka Nóa Ármannsdóttir, Vesturbæjarskóla, með hugmynd sína Hjálmalás. Meðal fleiri hugmynda sem útfærðar voru í vinnusmiðjunni í HR voru sauðfjárteljari, hitamælispanna, plastleysari, snúskáp, lyklaskál, snúruhulstur, lestrarhjálp og lyklatafla.

Auk þess að verðlauna hugmyndaríka nemendur hljóta kennarar einnig viðurkenningu Nýsköpunarkeppninnar. Viðurkenningin heitir Vilji og er veitt fyrir framúrskarandi störf til eflingar nýsköpunarmenntunar á Íslandi. Í ár hlutu tveir kennarar nafnbótina „Nýsköpunarkennari grunnskólanna árið 2018“, þær Sædís Arndal í Hofsstaðaskóla og Arna Björk H. Gunnarsdóttir í Vesturbæjarskóla.

Nkg2018-2Nýsköpunarkeppni grunnskólanna var haldin í fyrsta skipti árið 1991. Keppnin er haldin á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytið en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um framkæmd hennar. Í verkefnishópi keppninnar eru Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð, Samband íslenskra sveitarfélaga og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.