Fréttir eftir árum


Fréttir

Sigurlið Hnakkaþonsins 2016 fer til Boston í mars

25.1.2016

_00A5735 Sigurvegarar Hnakkaþons HR og SFS 2016

Verðlaun voru afhent fyrir bestu lausnina í Hnakkaþoni HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins, í dag. Sigurliðið lagði fram áætlun um hvernig Þorbjörn hf. í Grindavík geti aukið notkun rafmagns á línubátum og frystitogara félagsins, bæði við veiðar og við bryggju. Einnig lögðu þau til að Þorbjörn hf., yrði fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi til að taka upp ISO14001 umhverfisstaðal, sem felur í sér markmiðasetningu í umhverfismálum og skuldbindingu um sífelldar umbætur.

Hér má sjá kynningu liðsins

Sigurliðið í ár skipuðu nemendur í vél- og orkutæknifræði, viðskiptafræði og lögfræði við HR, þau Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir. Þau eru á leið á stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku, í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Frá Hnakkaþoninu 2016

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði við verðlaunaafhendinguna að verkefni Hnakkaþonsins þetta árið hafi verið mjög krefjandi. Þátttakendur þurftu að leggja fram tillögur um breytingar á starfsemi Þorbjarnar hf. sem leiddu til minni losunar koltvísýrings og aukinnar hagkvæmni í rekstri. „Nemendur leystu þetta verkefni með miklum sóma og þær tillögur sem komu fram voru bæði fjölbreyttar og mjög gagnlegar. Dómnefndinni var því vandi á höndum en að lokum varð niðurstaðan engu að síður samhljóða.“

Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar segir: „Það er mikilvægt að efla tengsl milli háskóla og atvinnulífs auk þess sem fyrirtækið hefur ávinning af því að fara yfir sín mál á skipulegan hátt. Það var mikill fengur í því að hlýða á spurningar nemenda og tillögur og virkilega gaman að sjá hvað nemendur voru áhugasamir og virtust ná prýðilegum skilningi á mörgum tæknilegum málum á skömmum tíma.“

Í Hnakkaþoni HR og SFS reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni varðaði eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans, loftslagsmál, í kjölfar tímamótasamkomulags ríkja heims í París á síðasta ári. Þátttakendur í Hnakkaþoninu fengu afhent ítarleg gögn um starfsemi Þorbjarnar hf. í Grindavík, sem dæmi um íslenskt útgerðarfyrirtæki. Alls skiluðu 12 lið inn fjölbreyttum tillögum.

Í dómnefnd Hnakkaþons 2016 sátu: Ari Kristinn Jónsson, rektor HR; Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair; Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips; Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR; Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands; Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar; Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri FESTU, Miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS.

Íslenskur sjávarútvegur er margþætt atvinnugrein sem kallar á mikla þekkingu og sérhæft starfsfólk. Meðal viðfangsefna hans eru fiskveiðar, matvælavinnsla, markaðssetning, nýsköpun, tækniþróun, flutningar, rannsóknir, umhverfismál og margt fleira. Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Hnakkaþonið er einnig liður í áherslu Háskólans í Reykjavík á raunhæf verkefni í námi, í samvinnu við íslenskt atvinnulíf. „Það er mikilvægt að efla tengsl milli skóla og atvinnulífs auk þess sem fyrirtækið hefur ávinning af því að fara yfir sín mál á skipulegan hátt. Það er fengur í því að hlýða á spurningar nemenda og tillögur. Það var virkilega gaman að sjá hvað nemendur voru áhugasamir og virtust ná prýðilegum skilningi á mörgum tæknilegum málum á skömmum tíma,“ sagði Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar við verðlaunaafhendingu Hnakkaþons HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins, í dag.