Fréttir eftir árum


Fréttir

Sigurvegarar Hnakkaþons heimsækja Samherja

5.3.2015

Sigurvegarar Hnakkaþons heimsækja SamherjaSigurlið fyrstu Hnakkaþon-keppni HR og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi heimsótti á dögunum höfuðstöðvar Samherja á Dalvík. Þar gafst þeim tækifæri til að kynnast frá fyrstu hendi fjölbreyttri starfsemi fyrirtækisins; frá frystihúsgólfinu og upp til yfirstjórnarinnar. 

Þá kynntu þau forsvarsmönnum Samherja, að meðtöldum forstjóranum, Þorsteini Má Baldvinssyni, vinningshugmynd sína um bætta markaðssetningu á þorskhnökkum fyrir Bandaríkjamarkað og svöruðu spurningum. Að sögn eins fulltrúa fyrirtækisins var sigurlausnin fram úr væntingum að gæðum.

Veðurteppt í sumarbústað

Ferðalangarnir voru ánægðir með ferðina norður. „Í heimsókninni fengum við ómetanlega innsýn í vinnsluferlið og það var ótrúlegt að sjá hversu mikið er unnið úr einum þorski. Við nutum líka sérstaklega hlýlegrar, norðlenskrar gestrisni og þótti okkur gaman að sjá hversu mikinn tíma þau gáfu sér til að ræða við okkur,” sagði Jóhanna Edwald, meistaranemi í lögfræði við HR.

Það kom ekki að sök að verða veðurteppt á Akureyri því hópurinn skellti sér í keilu, kvöldmat á Greifanum og spiluðu svo fram á nótt í sumarbústað á meðan versti veðurhamurinn gekk yfir.

Halda næst vestur um haf

Næst liggur leið fimmmenninganna til Boston þar sem þau munu heimsækja stærstu sjávarútvegssýningu Bandaríkjanna, Seafood Expo North America ásamt rektor HR, Ara Kristni Jónssyni. Ferðin er sigurlaun Hnakkaþon keppninnar, í boði bandaríska sendiráðsins á Íslandi og Icelandair Group.

Sjá frétt: Sigruðu í fyrsta Hnakkaþoninu