Fréttir eftir árum


Fréttir

„Það er svo fallegt hérna“

4.6.2019

16 nemendur luku nýlega fyrsta sumarskóla Háskólans í Reykjavík og University of Southern Maine (USM) en hann var haldinn í HR dagana 19. - 29. maí.

Sumarskólinn er hluti af samstarfi háskólanna tveggja í kennslu og rannsóknum en viðfangsefni hans eru leiðtogafærni og stjórnun nýsköpunar. Í ár var áherslan á sjálfbæra ferðamennsku á Íslandi. Hópurinn samanstóð af íslenskum og bandarískum nemendum.

Unnu að lausnum fyrir Akranes

Hópurinn fékk kennslu í HR en fór líka í heimsóknir í fyrirtæki til dæmis á Akranesi þar sem Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, tók á móti honum. Meðal verkefna nemendanna var að vinna að lausnum fyrir Akraneskaupstað um Akranes, ferðaþjónustu, krabbaveiðar og heilsueflandi samfélag sem munu jafnvel nýtast í stefnumótun bæjarins til framtíðar. Eftir að hafa fundað með starfsfólki bæjarins og hagsmunaaðilum var tilvalið að skella sér í sjóinn við Langasand og laugina Guðlaugu.

Ánægð með kennsluna - og veðrið

Þau höfðu orð á því síðasta daginn í HR að kennslan hafi verið óhefðbundin og það væri einn helsti kostur sumarskólans. „Við erum búin að fara í fullt af leikjum til dæmis.“ Þessar aðferðir eru nýttar til að þjálfa nemendurna í því að skoða áskoranir í rekstri á skapandi hátt. Í lok síðustu kennslustundarinnar sögðust nemendurnir hafa notið þess hvað veðrið hafi verið gott og þau geri sér grein fyrir því hversu heppin þau hafi verið: „Það er svo ótrúlega fallegt hérna og ég er svo glöð með að hafa fengið svona gott veður til að njóta náttúrunnar sem best.“

Aftur að ári

Sumarskóli HR og USM verður haldinn á ný árið 2020. Nemendur fá 6 ECTS fyrir að ljúka sumarskólanum sem er á BSc-stigi.

Hópur fólks situr í tröppunum í SólinniHópurinn eftir síðustu kennslustundina í HR, daginn fyrir brottför frá Íslandi. Á myndinni eru einnig leiðbeinendur námskeiðsins sem koma frá HR og USM.