Fréttir eftir árum


Fréttir

Skiptinám eykur starfsmöguleika

26.11.2014

Ný, viðamikil rannsókn sýnir að skipti- eða starfsnám erlendis getur verið dýrmæt reynsla þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Samkvæmt rannsókninni horfa vinnuveitendur eftir því hvort umsækjendur um störf hafi aflað sér alþjóðlegrar færni á sínum ferli.

Skiptinám skiptir máli!Rannsóknin var gerð á vegum framkvæmdastjórnar ESB og tóku tæplega 80 þúsund manns  þátt í henni frá 34 löndum. Hér er um að ræða stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á þessu sviði, en þeir sem tóku þátt voru háskólanemar, útskrifaðir háskólanemar á vinnumarkaði,  starfsmenn háskóla (akademískir og almennir starfsmenn) og forsvarsmenn fyrirtækja.

Alþjóðleg færni mikilvæg

Sú persónulega færni og kunnátta sem nemendur öðlast með nýrri reynslu við dvöl erlendis er afar eftirsóknarverð í augum vinnuveitenda í Evrópu, en 92% þeirra fyrirtækja sem þátt tóku í rannsókninni vilja fremur ráða starfsfólk með alþjóðlega færni. Í því sambandi voru nefndir ákveðnir eiginleikar eins og lærdómsþorsti, víðsýni, umburðarlyndi, sjálfstraust og hæfni til að leysa vandamál og taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Það vekur athygli að slík alþjóðleg færni er að verða sífellt mikilvægari eiginleiki þegar nemendur koma út í atvinnulífið. Sambærileg könnun var gerð árið 2006. Það hlutfall vinnuveitenda sem telur reynslu erlendis frá mikilvæga hefur síðan þá tvöfaldast.

Þeir  einstaklingar sem hafa dvalið til lengri eða skemmri tíma erlendis við nám eða vinnu eru einnig ólíklegri til að vera atvinnulausir til langs tíma. Rannsóknin sýnir fram á að  fimm árum eftir útskrift er atvinnuleysi hjá þeim 23% lægra en hjá einstaklingum sem ekki hafa stundað nám eða vinnu í útlöndum.

Skiptinám skiptir máli!

Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir er forstöðumaður skrifstofu alþjóðaskipta. Hún segir niðurstöðurnar ekki koma sér á óvart. „Það hefur löngum verið vitað að skipti- eða starfsnám erlendis styrkir sjálfsmynd og sjálfstæði nemenda. Það nýtist þeim heldur betur þegar þeir fara að sækja um vinnu eftir námið. Það að ákveða að fara erlendis í skipti- eða starfsnám hefur svo mikið með þroskann að gera og ákveðna sjálfsbjargarviðleitni. Til dæmis þarf heilmikinn aga og skipulag bara í umsóknarferlið og að fara alla leið!“

Guðlaug Matthildur JakobsdóttirGuðlaug Matthildur Jakobsdóttir, forstöðumaður skrifstofu alþjóðaskipta

„Dvölin felur svo margt í sér fyrir utan það að stunda nám í háskóla í öðru landi. Þú kynnist fólki frá öllum heimshornum, þjálfar þig í menningarfærni, eflir kjarkinn og eykur víðsýni. Svo er það eitt sem er manni mjög hollt en gleymist kannski í umræðunni, það er að nemendur fá um leið fjarlægð á eigin menningu. Svo þurfa þeir ef til vill að tala um hana í skólanum úti og þar með gefst þér ákveðið tækifæri til að meta upp á nýtt þitt eigið land og þjóð. Þetta er að mínu mati mjög dýrmætt. Svo eignast nemendur yfirleitt góða vini, suma fyrir lífstíð og stækka tengslanetið svo um munar. Allt þetta hjálpar þér í námi, í starfi og í lífinu.“

Til gamans má geta þess að nýlega var tilkynnt að fæðst hefði ein milljón Erasmus barna síðan áætlunin var sett á laggirnar árið 1987. Þó vill Guðlaug ekki hræða nemendur því þessi börn hafa ekki endilega orðið til á meðan á skiptinámi stendur heldur hafa orðið til sambönd og hjónabönd eftir dvölina sem hafa leitt til þessarar fjölgunar Evrópubarna. 

Guðlaug vill að sjálfsögðu hvetja sem flesta til að kynna sér möguleikana á skipti- og starfsnámi á meðan á háskólanámi stendur. Námslega séð komast ekki allir í skiptinám, en flestir sem virkilega ætla sér það geta það.  Frá HR fara 60-80 nemendur ár hvert í skipti- og starfsnám erlendis, þar af lang flestir í skiptinám og snúa allir tilbaka reynslunni ríkari og margir nemendanna eru mjög virkir í alþjóðastarfi innan HR eftir heimkomuna.