Fréttir eftir árum


Fréttir

Brot sem kærð eru strax rata frekar fyrir dóm

4.12.2015

Málþing um meðferð nauðgunarmála og viðhorf til brotanna var haldið í HR í gær, fimmtudag, á vegum Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. Við setningu málþingsins sagði Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, að vonir hennar stæðu til að málþingið myndi vera vettvangur uppbyggilegrar og hreinskilinnar umræðu um kynferðisbrot. Jafnframt væri mikilvægt fyrir samfélagið að reyna að koma í veg fyrir að þolendur upplifi skömm í kjölfar brotanna.

Á málþinginu héldu erindi, auk Svölu, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst, Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og formaður dómstólaráðs, Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, meistaranemi í félagsfræði, Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítala og dósent við Læknadeild HÍ og Þorbjörn Broddason, prófessor.

Svala_Isfeld_Olafsdottir-1-

Í erindi sínu um dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum fjallaði Svala Ísfeld Ólafsdóttir um ýmis einkenni brota, brotaþola og gerenda í þeim málum sem dæmt var. Rannsókn Svölu var byggð á dómum frá árunum 1920-2015. Athygli vekur að tæpur helmingur þeirra sem dæmdir höfðu verið fyrir nauðgun í Hæstarétti á þessum árum höfðu áður hlotið refsidóma, þó þessir fyrri dómar væru ekki fyrir nauðgun. „Þetta vekur athygli,“ sagði Svala, „ekki síst vegna þess að til þess að vera með refsidóm á bakinu þarf viðkomandi að hafa gert ýmislegt, og meðalaldur gerenda er ekki nema 26 ár.“ Hún sagði þessar niðurstöður velta upp frekari spurningum varðandi gerendur. Jafnfram kom fram í máli Svölu að vettvangur glæps er oftast umráðasvæði gerandans.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir,  sviðsstjóri lögfræðisviðs við Háskólann á Bifröst, greindi frá viðamikilli rannsókn sinni sem byggð var á gögnum lögreglu og ákæruvalds, og gaf mynd af ferli mála innan kerfisins og hvað hafi áhrif á það að dómur falli í ákveðnum málum. Samkvæmt niðurstöðum Þorbjargar er algengasti brotavettvangur heimilið, 69% málanna voru framin að næturlegi og 63% um helgar. Það sem helst virðist skipta máli varðandi málalyktir er hversu fljótt brotin eru kærð og hvort leitað hafi verið innan tveggja daga til neyðarmóttöku eða læknis. Þau mál þar sem það á við leiða frekar til ákæru.

TSG

Sakborningar eru ungir karlmenn, meðalaldur þeirra er 29 ár og helmingur þeirra er yngri en 25 ára. „Það kemur líka sterkt fram aldursmunur milli gerenda og brotaþola, gerandinn er yfirleitt eldri. Samband gerenda og brotaþola er yfirleitt þannig að þessir aðilar eru ekki ókunnugir en það eru engar skýrar línur varðandi tengsl,“ sagði Þorbjörg. „Brotaþolar eru ungar konur, 40% þeirra eru undir 18 ára aldri, eða börn í skilningi laganna. Meðalaldur er 22 ár.“

Þorbjörg sagði þá þætti sem styrkja mál vera, auk þess hversu hratt er kært, að vottorð sálfræðings sé til staðar ásamt skýrslu réttarlæknisfræðilega skoðun. Þá skiptir  málshraði innan kerfisins líka máli. Hún sagði tíma sem tæki að afgreiða mál vera að styttast hjá lögreglu en lengjast hjá ákæruvaldinu. Að meðaltali eru mál 15 mánuði að fara í gegnum kerfið. Hún sagði leynd yfir kynferðisbortamálum orka tvímælis; þau vernduðu brotaþola en gerðu það jafnframt að verkum að almenningur vissi lítið um ferli málanna í kerfinu.

Skiptir mestu máli að kæra strax