Fréttir eftir árum


Fréttir

Skoða áhrif tækni og þekkingar á vinnumarkað Rúmeníu

3.3.2020

Hvernig hafa tækni, þekking og breytingar á mörkuðum áhrif á vinnumarkaðinn í Rúmeníu næstu 10 árin? 

Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í tveggja ára verkefni með starfsmönnum frá rúmensku háskólunum National University of Political Studies and Public Administration og National Scientific Research Institute for Labour and Social Protection.

Kennsluefni og nemendaskipti

Markmiðið er að þróa kennsluefni fyrir bæði háskólanema og fólk sem þegar vinnur hjá smáum eða meðalstórum fyrirtækjum. Kennsluefnið verður notað til að auka hæfni þessa fólks í atvinnulífinu og til að greina möguleika til nýsköpunar. 

Verkefnið felur einnig í sér aðkomu, samskipti og samvinnu milli nemenda frá Íslandi og Rúmeníu og heimsóknir í báðar áttir. Gert er ráð fyrir að fyrsta heimsókn nema og kennara frá Rúmeníu muni eiga sér stað á vordögum.

Hópur fólks stendur saman upp við töflu

Hópurinn sem kemur að verkefninu.

Á að draga úr ójöfnuði

Í forsvari fyrir verkefnið fyrir hönd HR eru Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir, forstöðumaður alþjóðaskrifstofu og Hallur Þór Sigurðarson, lektor við viðskiptadeild. Veita þau allar frekari upplýsingar um það. 

Verkefnið heitir „School of Knowledge Production and Transfer for Global Economy and Governance“ innan uppbyggingarsjóðs EES sem er fjármagnaður af EFTA löndunum og hefur það að markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan EES og efla tvíhliða samstarfs milli EFTA ríkjanna og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu.