Sköpunargleði og nýsköpun í alþjóðlegum sumarskóla í HR
Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í samstarfi við Háskólann í Suður-Maine (USM) í Bandaríkjunum, heldur 10 daga sumarskóla um nýsköpun, með áherslu á ferðaþjónustu, í lok júlí í HR. Háskólarnir tveir skrifuðu undir samning á síðasta ári um samstarf í kennslu og rannsóknum og er sumarskólinn liður í því samstarfi.
Nú er opið fyrir umsóknir í sumarskólann sem er á BSc-stigi og veitir 6 ECTS einingar. Sumarskólinn er opinn öllum nemendum HR í grunnnámi sem hafa nægt frjálst val námskeiða í sínu námi. Kennslan stendur yfir frá 29. júlí til 11. ágúst. Um tuttugu nemendur frá Háskólanum í Suður-Maine munu sækja námskeiðið sem er einnig opinn nemendum úr HR og hvaðanæva að. Einungis þarf að uppfylla þau inntökuskilyrði sem tíunduð eru á vef HR.
Nýsköpun er nauðsyn
„Í dag verða fyrirtæki að horfa á reksturinn frá nýjum hliðum. Sköpunargleði og nýsköpun eru nauðsyn. Þjóðfélög og markaðir eru að taka örum breytingum, ekki síst þegar litið er til tækninýjunga. Við menntum fólkið sem mun stjórna þessum breytingum og þarf að bregðast við þeim. Með því að kenna nemendum að nýta sköpunargáfuna til að bregðast við áskorunum í rekstri og með því að þjálfa þá í að vinna með fólki úr öðrum greinum erum við einfaldlega að undirbúa þá sem best fyrir framtíðina,“ segir Páll Melsted Ríkharðsson, forseti viðskiptadeildar.
Kennsla í sumarskólanum verður með blönduðu sniði. Nemendur hljóta leiðsögn reyndra kennara og gestafyrirlesara, en vinna einnig mikið saman í teymum. Nemendur munu þurfa að leysa verkefni sem tengjast íslenskri ferðaþjónustu og sjálfbærni.
Breytt hlutverk stjórnenda
Að sumarskólanum loknum hafa nemendur því öðlast færni sem er afar eftirsóknarverð. „Stjórnendur og sérfræðingar framtíðarinnar þurfa ekki aðeins að geta brugðist við breytingum, heldur einnig að vera hreyfiafl nýjunga. Þeir munu þurfa að hafa færni til að nálgast áskoranir á skapandi hátt til að framkalla þessar nýjungar. Með aukinni sjálfvirkni í rekstri og gagnaúrvinnslu má raunar spyrja sig hvort í slíkt frumkvæði verði helsta hlutverk stjórnenda,“ segir Hallur Þór Sigurðarson, lektor og einn af kennurum námskeiðsins.
Nýsköpun hefur einkennt starf viðskiptadeildar HR frá stofnun hennar en deildin hefur staðið fyrir skyldunámskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja fyrir nemendur á fyrsta ári. Það námskeið er núna skyldunámskeið fyrir nemendur allra deilda og hefur verið fyrirmynd háskóla í Kanada sem hyggst bæta slíku námskeiði við námsframboðið hjá sér.
Spennandi samstarfsmöguleikar
Viðskiptadeildir HR og Háskólans í Suður-Maine (University of Southern Maine, USM) stefna á öflugt samstarf í kennslu og rannsóknum. „Háskólinn í Reykjavík er alþjóðlegur háskóli og við stefnum á að styrkja samstarf okkar enn frekar við valda háskóla. Ástæður þess að við viljum vinna meira með USM er að í fyrsta lagi er þetta mjög góður háskóli og í öðru lagi þá eru margir spennandi samstarfsmöguleikar milli skólanna tveggja sem munu nýtast nemendum okkar og íslensku samfélagi,“ segir Páll. Um 10 þúsund nemendur stunda grunn- og meistaranám við USM.