Fréttir eftir árum


Fréttir

Skrifað um nýtt millidómsstig, lýðskrum og íslenskt yfirráðasvæði

5.1.2018

Tímarit Lögréttu er komið út. Í því er leitast við að taka á lögfræðilegum álitaefnum sem eru til umfjöllunar í samfélaginu hverju sinni. Meginumfjöllunarefni tímaritsins að þessu sinni eru dómstólarnir og þá sérstaklega sú nýskipan á sviði dómstólaskipunar og réttarfars sem gengur í gildi í ársbyrjun 2018.

Í nýútkomnu tölublaði má meðal annars finna greinar eftir fræðimenn við lagadeild Háskólans í Reykjavík um mikla ágalla í gildissviðsákvæðum íslenskra laga, nýtt millidómsstig og lýðskrum og réttarríkið. Útdrætti úr nokkrum greinum má finna hér fyrir neðan. Í ritinu eru jafnframt fjallað um ábyrgðir til tryggingar lánum, stjórnskipulega meðalhófsreglu og yfirlit yfir þróun dómstólakerfisins á Íslandi.

Myndin sýnir nýtt tímarit LögréttuAuk fræðigreina eru í tímaritinu áhugaverð viðtöl við Markús Sigurbjörnsson, forseta Hæstaréttar, Hervöru Þorvaldsdóttur forseta Landsréttar og listamenn sem komu að hönnun á dómsal nr. 2 í Hæstarétti Íslands.

Um Tímarit Lögréttu

Tímaritið hóf göngu sína árið 2004 og er samstarfsverkefni lagadeildar Háskólans í Reykjavík og nemenda lagadeildar. Ritstjórar eru þau Arnar Þór Jónsson og Svala Ísfeld Ólafsdóttir. Í ritstjórn sitja auk þeirra: Eiríkur Elís Þorláksson, Sigríður Árnadóttir og Stefán Eiríksson. Þór Jónsson er framkvæmdastjóri útgáfunnar. Ritstjórninni til ráðgjafar er heiðursritnefnd, skipuð 10 lögfræðingum.

Tímaritið er sent til áskrifenda auk félagsmanna Lögréttu. Til að nálgast ritið vinsamlega hafið samband við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Útdrættir úr greinum

Arnar Þór Jónsson og Bjarni Már Magnússon - Gildissviðsgatasigti

Markmið þessarar greinar er að benda á mistök sem gerð hafa verið við samningu lagaákvæða er snerta landfræðilegt gildissvið löggjafar er varðar hafið og skyldra ákvæða er snerta íslenskt yfirráðasvæði og lögsögu. Meginþungi þessara skrifa er á réttarreglur um yfirráðasvæði og lögsögu íslenska ríkisins eins og þær birtast í gildissviðsákvæðum og öðrum sambærilegum ákvæðum. Ekki er unnt að útiloka að mistök þessi hafi átt þátt í því að sakborningar hafi hlotið refsidóma án þess að öll skilyrði sakfellingar hafi verið fyrir hendi. Þar að auki veitir löggjöf sem ætlað er að vernda umhverfi hafsins, en inniheldur gildissviðsákvæði sem haldið er annmörkum, falska réttarvernd fyrir umhverfið.

Sigurður Tómas Magnússon - Millidómstigið

Í ársbyrjun 2018 tekur gildi ný löggjöf hér á landi á sviði dómstólaskipunar og réttarfars. Dómstigin verða þrjú í stað tveggja áður, nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tekur til starfa og hlutverk Hæstaréttar mun breytast verulega. Í greininni er fjallað um helstu ástæður lagasetningarinnar, kosti hennar og ókosti og hvernig reynt var að draga úr ókostunum. Þá er fjallað um helstu breytingar sem löggjöfin hefur í för með sér. Gerð er grein fyrir hvernig munnlegri sönnunarfærslu verður háttað fyrir Landsrétti og úrræðum til fá mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar endurskoðað. Þá er fjallað um þær verklagsreglur sem Landsréttur þarf að móta um framkvæmd sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi, deildaskiptingu réttarins, úthlutun mála, uppbyggingu dóma og aðra þætti starfseminnar. Komist er að þeirri niðurstöðu að allir þeir sem bera ábyrgð á meðferð dómsmála þurfi að vinna saman að því að tilkoma millidómstigs verði ekki til þess að lengja málsmeðferðartíma úr hófi og draga úr skilvirkni dómskerfisins. Þá sé mikilvægt að tryggja að tilkoma millidómstigs muni í reynd auka réttaröryggi í landinu og traust til dómstóla.

Arnar Þór Jónsson og Dr. Renata Martins - Lýðskrum og réttarríki

Grein þessi er rituð í tilefni af atburðarás sem hófst á sumarmánuðum 2017 og framkallaði brigslyrði og ásakanir, sem leiddu af sér slit á ríkisstjórn, hroðvirknislegar breytingar á almennum hegningarlögum, þingrof og alþingiskosningar að hausti þetta sama ár. Eftir margra mánaða umræður og harða gagnrýni á samfélagsmiðlum kaus Alþingi, með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum, að breyta almennum hegningarlögum með fljótaskrift sem skilur ótiltekinn hóp fólks eftir án úrræða til að endurheimta borgaraleg réttindi sem viðkomandi hafa misst samhliða fyrri refsidómi. Í greininni er fjallað um þessa atburði, og þó sérstaklega umræddar breytingar á hegningarlögum, í samhengi við það sem í daglegu tali nefnist lýðskrum. Tilgangur greinarinnar er að minna á þá ógn sem lýðræði og lagasetningu stafar af lýðskrumi. 

Lesa meira um lagadeild Háskólans í Reykjavík