Fréttir eftir árum


Fréttir

Skýrar aðgerðir í nýrri Jafnréttisáætlun HR

9.10.2018

Ný jafnréttisáætlun Háskólans í Reykjavík var samþykkt af framkvæmdastjórn háskólans fyrir stuttu og gefin út í Jafnréttisviku 2018.

„Það þurfti að endurnýja jafnréttisstefnu háskólans og við ákváðum að breyta henni þó nokkuð, enda hafði HR fengið athugasemdir við fyrri stefnu frá Jafnréttisstofu þar sem þótti vanta upplýsingar um ábyrgð,“ segir Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild og formaður Jafnréttisnefndar HR sem vann nýju stefnuna. Með Katrínu í Jafnréttisnefnd eru Ásrún Matthíasdóttir, lektor við tækni- og verkfræðideild, Katrín Rut Bessadóttir, verkefnastjóri á markaðs- og samskiptasviði, Kári Halldórsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild og Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona bókasafns og upplýsingaþjónustu HR. Þá var Birgitta Saga Jónsdóttir fulltrúi nemenda við gerð áætlunarinnar.

Katrín ÓlafsdóttirKatrín Ólafsdóttir, formaður Jafnréttisnefndar Háskólans í Reykjavík.

Í stefnunni er lýst markmiði og starfsemi nefndarinnar en helstu efnisatriði hennar snúa að launum og kjörum, ráðningum, framgangi, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og skilgreiningum og reglum vegna kynbundins ofbeldis og kynferðislegrar áreitni. „Stefnan er mun ítarlegri en hún var og allt sem kveðið er á um í henni er aðgerðarbundið og ábyrgðin skýr,“ segir Katrín. 

Sýnileikinn skiptir máli

Í nýrri jafnréttisstefnu er einnig fjallað um jafnrétti í innra starfi háskólans. Það þýðir að meiri gaumur er gefinn hverjir kenna skyldukúrsa, dæmatíma og sinna aðstoðarkennslu. Þar er einnig kveðið á um að við inntöku nemenda verði þess gætt eftir megni að taka inn fleiri einstaklinga af því kyni sem er í minnihluta. „Við settum inn ákvæði um ýmislegt sem mörgum myndi ef til vill ekki detta í hug að þyrfti að huga að út frá jafnrétti eins og námskeiðslýsingar og leslista í námskeiðum. Námskeiðslýsingar þurfa að höfða til allra og leslistar mega til dæmis ekki bara innihalda greinar eftir karlkyns fræðimenn. Sýnileiki skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli, bæði í kennslu og í lesefni,“ segir Katrín. Hún segir orðalag einnig skipta máli enda sé í nýju stefnunni ekki talað um karla og konur heldur tekið fram að réttindi og ferlar séu óháðir kyni, það er, kynsegin (e. non-binary).

Lesið í tölfræðina

Meðal þess sem kveðið er á um í stefnunni er að gera skuli úttekt á launum á að minnsta kosti þriggja ára fresti. Árlega skal birta samantekt um ráðningar í stjórnunarstöður í jafnréttisskýrslu og sömuleiðis skal á hverju ári taka saman og birta tölfræði yfir m.a. kynjasamsetningu, þjóðerni og aldursdreifingu starfsmanna. Niðurstöðurnar skulu birtar fyrir skólann í heild, hverja deild, akademískar stöður, stjórnunarstöður og helstu nefndir og ráð.

Katrín segist stolt af nýrri Jafnréttisstefnu HR. „Ég er mjög ánægð með stefnuna og vinnuna við hana í heild sinni. Við í nefndinni unnum að henni allan fyrravetur og vorum metnaðarfull í þeirri vinnu. Það hjálpaði til að við vorum sammála um heildarmyndina þó að það hafi að sjálfsögðu verið setið á rökstólum á fundunum. Þetta var gefandi og skemmtilegt samstarf, svo kom #metoo kom þarna inn í umræðuna líka þannig að þetta var afar áhugavert en jafnframt krefjandi verkefni.“