Fréttir eftir árum


Fréttir

Slakað á samkomubanni stjórnvalda og lokun háskóla

4.5.2020

Í dag, mánudaginn 4. maí, var slakað á samkomubanni stjórnvalda og lokun háskóla. Það er mikið ánægjuefni að þessi árangur hafi náðst og tilhlökkunarefni að koma starfi háskólans smám saman í eðlilegra horf. 

Sólin í Háskólanum í Reykjavík

Nemendur geta sótt um aðgang að takmörkuðum fjölda lesrýma í Sólinni og kennarar og leiðbeinendur geta sótt um aðgang fyrir nemendur að tækjum og gögnum í háskólanum, t.d. á rannsóknastofum og bókasafni. Fyrirkomulag kennslu, prófa og þriggja vikna námskeiða verður óbreytt frá því sem áður hefur verið tilkynnt. HR gætir fyllstu varúðar við enduropnun háskólans og nýtir það svigrúm sem er til staðar til að veita þeim nemendum aðgang að byggingu HR sem mest þurfa á honum að halda. Nemendur sem þurfa aðgang að lesrýmum í byggingunni geta sent beiðnir um aðgang á netfangið adgangur@ru.is. Nemendur sem eru að vinna lokaverkefni og útskrifast í vor og þeir sem þurfa vinnuaðstöðu í skólanum vegna aðstæðna heima fyrir, hafa forgang að þeim lesrýmum sem eru til úthlutunar.

Stærstur hluti starfsfólks HR mun vinna heima út vorönnina en þeim starfsmönnum sem þurfa að nýta aðstöðu í háskólanum hefur verið skipt í tvo hópa sem geta mætt aðra hverja viku.

Aðalinngangur í Sólinni verður opinn fyrir þá sem hafa fengið aðgang, með aðgangskorti. Áfram verður mikil áhersla á sóttvarnir og þrif í HR en minnt skal á að rétt hegðun er besta smitvörnin. Allir sem nota byggingu HR eru beðnir um að gæta að tveggja metra reglunni, reglulegum handþvotti og sprittun.