Fréttir eftir árum


Fréttir

Sló í gegn á stærstu ráðstefnu á sviði heilbrigðisverkfræði í Evrópu

29.4.2016

Kyle Edmunds stendur í Sólinni í HR

Fékk verðlaun fyrir bestu greinina

Kyle Edmunds, doktorsnemi í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík, vann nýlega til verðlauna á stærstu ráðstefnu á sviði heilbrigðisverkfræði í Evrópu fyrir bestu vísindagreinina. Hún fjallar um rannsóknir á nýju matskerfi fyrir mjaðmaskipti. Tæplega 260 greinar voru lagðar fram fyrir ráðstefnuna.

Kerfi sem mun bæta heilbrigðisþjónstu

Tilgangur rannsóknarinnar er að þróa matskerfi fyrir sjúklinga sem þurfa að fara í heildarmjaðmaliðarskipti. Markmiðið er að geta metið hver sé besta tegund af gerviliði á áreiðanlegan og auðveldan hátt fyrir hvern og einn, því áður en aðgerð er framkvæmd þarf til dæmis að velja á milli mismunandi tegunda af gerviliðum. Með því að þróa einfalt og öruggt matskerfi má bæta heilbrigðisþjónustu, minnka kostnað til framtíðar og að þróa skilmerkilegar klínískar verklagsreglur við mjaðmaskiptaaðgerðir.

Rannsóknin er samstarfsverkefni HR og Landspítala háskólasjúkrahúss. Gerð var klínísk rannsókn á spítalanum þar sem fylgst var kerfisbundið með sjúklingum sem fóru í heildarmjaðmaliðarskipti. Notaðar voru tölvusneiðmyndir af mjaðmagrind og lærlegg sjúklinganna og þættir eins og beinþéttni, formgerð vöðva, göngugreining, vöðvarafrit og klínískt mat á sjúklingum skoðaðir til að ákveða skorkerfið í hinu nýja matskerfi.

Kyle, sem er doktorsnemi og dæmatímakennari við tækni- og verkfræðideild, sá um að safna gögnunum og flytja niðurstöðurnar á ráðstefnunni, en hann segir rannsóknina vera samvinnuverkefni. „Fyrir sjálfa ráðstefnuna vorum við í öðru sæti. Svo var lokaákvörðun tekin um úrslit að lokinni kynningu og framsetningu og við stóðum uppi sem sigurvegarar.“ Kyle hlaut tvenn verðlaun á ráðstefnunni: MEDICON2016 First Place Honorarium og Springer Scientific Young Investigator Award.

Kyle stendur í hópi annarra tilnefndra á ráðstefnunni

Kyle ásamt öðrum vísindamönnum sem voru tilnefndir á Medicon ráðstefnunni.

Gaman að koma að uppbyggingunni

Medicon-ráðstefnan er fjölsótt ráðstefna og sú stærsta sinnar tegundar sem haldin er í Evrópu. „Hún er haldin á fjögurra ára fresti, þannig að þetta er næstum eins og HM í fótbolta!“ Kyle, sem er frá Bandaríkjunum, lærði vefjaverkfræði í Boston en langaði svo að breyta til. „Ég var búinn að ferðast hingað til Íslands og gat hugsað mér að búa hér í einhvern tíma. Ég sé ekki eftir því, mér hefur fundist mjög gefandi að vera hluti af uppbyggingu heilbrigðisverkfræði á Íslandi. Deildin hér hefur stækkað alveg ótrúlega mikið bara síðan ég kom og vinnan mín er mjög skemmtileg.“ Hann segist kunna vel við sig hér á landi, til dæmis sé veðrið frábært. „Já, fólk er svolítið hissa þegar ég segi þetta en ég er frá miðríkjunum þar sem verður mjög, mjög kalt á veturna og gríðarlega heitt á sumrin, þannig að mér finnst veðrið hérna einfaldlega betra.“

Á þeim tveimur árum sem Kyle hefur verið við nám í HR hefur til dæmis Íslenska taugalífeðlisfræðisetrið í Háskólanum í Reykjavík verið stofnað. Þar er nýr heilariti til rannsókna á starfsemi heilans og taugakerfisins en að stofnun setursins stóðu vísindamenn við Háskólann í Reykjavík, Landspítala – háskólasjúkrahús, Össur, Íslenska erfðagreiningu, Háskóla Íslands og Hjartavernd. Jafnframt hefur aðsókn að námi í heilbrigðisverkfræði aukist mjög.

Mynd úr rannsókninni sem sýnir göngugreiningu

Rannsóknin sem Kyle kynnti á Medicon-ráðstefnunni heitir Multimodal Quantitative Assessment for Pre-Operative Prosthesis Selection in Total Hip Arthroplasty og var styrkt af meðal annars Rannsóknasjóði Rannís. Meðhöfundar eru Paolo Gargiulo, Þröstur Hermannsson, Íris Árnadottir, Magnús Gíslason, Mario Barbato og Delphine Estournet.