Fréttir eftir árum


Fréttir

Smit staðfest innan nemendahóps

17.9.2020

Staðfest hefur verið að Covid-smit hafi greinst í vikunni meðal nemenda Háskólans í Reykjavík. Ekki virðist vera um útbreitt smit að ræða því allir þeir nemendur sem hafa fengið staðfest smit, utan einn, tengjast og eru innan sama nemendahóps. 

Sá hópur og kennarar hans stunda nám og vinnu heiman að frá sér og koma ekki í HR meðan smitrakningarteymi vinnur að rakningu og ákvörðunum um hverjir fari í sóttkví. Öll rými sem viðkomandi einstaklingar voru í hafa verið sótthreinsuð. Nemandinn sem greindist og er ótengdur þessum hópi hefur ekki komið í HR í nokkurn tíma og því hefur enginn í HR þurft að fara í sóttkví vegna hans.

Strax og smit greinist meðal nemenda, þá er gripið til viðeigandi ráðstafana innan HR. Ef þörf er á, er tryggt að sá hópur sem nemandi tilheyrir sinni námi heiman frá sér uns staðan skýrist. Allar skólastofur eru sótthreinsaðar að morgni og á milli nemendahópa. Sameiginleg rými og snertifletir eru sótthreinsuð a.m.k. daglega.

Í stóru og virku háskólasamfélagi má búast við að upp komi smit. Þess vegna hefur frá upphafi kennslu í haust verið lögð áhersla á sóttvarnir í HR, með skipulagi starfs, stýringu á nýtingu húsnæðis og miklum sótthreinsunum. Allar líkur eru á að með samstilltum aðgerðum og skimun verði unnt að stöðva útbreiðslu smits innan háskólans.

Eins og fram hefur komið hefur Íslensk erfðagreining boðist til að skima nemendur og starfsfólk HR fyrir veirunni. Háskólinn hvetur alla til að þiggja það góða boð. Fyrirkomulag tímapantana hefur verið kynnt í tölvupósti.