Fréttir eftir árum


Fréttir

Sóttvarnir og fyrirkomulag kennslu í upphafi nýs árs

6.1.2021

Ný reglugerð um takmarkanir á skólastarfi tók gildi 1. janúar. Þar er kveðið á um tveggja metra reglu, að fimmtíu nemendur megi vera í hverju sóttvarnarhólfi og að hópar skuli ekki blandast í kennslu.

Nokkrar breytingar verða á fyrirkomulagi sóttvarna í byggingu HR vegna þessa. Hægt verður að fjölga umtalsvert þeim vinnu- og lesrýmum sem nemendur hafa aðgang að og umferð um húsið verður eðlileg aftur. Áfram verður grímuskylda á göngum og opnum svæðum, en ekki í lesrýmum.

Ný reglugerð leyfir fleiri nemendur í hverri kennslustofu en áður, en tveggja metra reglan takmarkar áfram fjölda nemenda í hverri stofu. Bann við blöndun milli hópa þýðir að hver nemandi má aðeins tilheyra einum hópi sem telur að hámarki 50 manns og nemendur í mismunandi hópum mega ekki vera saman í kennslustofu.

Unnið er að útfærslu á hópaskiptingum og almennum leiðbeiningum og verða nemendur upplýstir eins og þörf krefur. Upplýsingar um fyrirkomulag kennslu í einstökum námskeiðum koma frá deildum og kennurum.

Sóttvarnir og fyrirkomulag kennslu 2021