Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Auðtré sigraði í Reboot Hack 2020

21.2.2020

Nemendur úr þremur deildum Háskólans í Reykjavík sameinuðust að baki hugmyndinni Auðtré, sem varð hlutskörpust í nýsköpunarkeppninni Reboot Hack sem fram fór í Háskóla Íslands 14.-16. febrúar. Auðtré hvetur fólk til að spara fé og um leið leggja sitt af mörkum til umhverfismála með gróðursetningu trjáa. 24 teymi unnu að lausnum sínum og kynntu fyrir dómnefnd í keppninni. 

Auðtré gengur út á að brjóta niður sparnaðarmarkmið í smærri einingar þar sem notandinn er verðlaunaður með því að fá gróðursett tré í sínu nafni á þriggja mánaða fresti, nái hann markmiðum sínum. 

Í hópnum sem stendur að Auðtré eru nemendur í Háskólanum í Reykjavík sem stunda nám í mismunandi brautum við háskólann: Adrian Sölvi Ingimundarson, vél- og orkutæknifræði, Egill Anton Hlöðversson, meistaranemi í máltækni, Sigurður Petur Stephan, viðskiptafræði, og Zakarías Friðriksson, tölvunarfræði.

Fjórir menn standa með stórt merki sín á milli

Vinningshafarnir í Reboot Hack 2020. Frá vinstri: Zakarías Friðriksson, Sigurður Petur Stephan, Adrian Sölvi Ingimundarson og Egill Anton Hlöðversson.

Lausnir tengdust samstarfsfyrirtækjum

Áskoranirnar tengdust starfi átta samstarfsfyrirtækja og -stofnana sem voru Auður, Origo, KPMG, Vörður, AwareGo, Listaháskóli Íslands, Byggðastofnun og Ölgerðin. Áskoranirnar voru mjög fjölbreyttar, allt frá því hvernig hægt væri að leikjavæða sparnað til þess hvernig stuðla megi að fjölgun starfa án staðsetningar og hvernig tækni gæti aukið starfsánægju á vinnustöðum. 

Teymin unnu að lausnum alla helgina í samráði við fyrirtækin og mættu jafnframt á vinnustofur. Þau fengu tækifæri til að kynna lausnir sínar fyrir dómnefnd sem veitti bæði verðlaun fyrir bestu lausn í hverri og einni áskorun og völdu fimm teymi til úrslita. Þau voru Kast, Krúna, Auðtré, Carbon Calc og Sett. Verkefnið Krúna var valin lausn fólksins en lausnin Auðtré reyndist sigurvegari Reboot Hack 2020. 

Tvær ungar konur ræða málinMálin rædd í vinnustofu.

Reboot Hack

Hakkaþon er nokkurs konar uppfinningamaraþon eða nýsköpunarkeppni þar sem þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn vinna saman í teymum í sólarhring að lausn að raunverulegum áskorunum sem ákveðnar eru fyrir fram. Þetta var í annað sinn sem keppnin var haldin en hún er hugarfóstur þriggja kvenna úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands og jafnframt fyrsta háskólanemadrifna hakkaþonið á Íslandi. Alls skráðu nærri hundrað stúdentar víða að úr heiminum sig til leiks um helgina og unnu þau í 24 teymum sem sum hver glímdu við fleiri en eina áskorun.

Myndir: Björn Gíslason.