Fréttir eftir árum


Fréttir

Dósent í heilbrigðisverkfræði á bak við Sprota ársins 2017

8.6.2017

Fyrirtækið Platome líftækni hlaut nýlega verðlaunin Sproti ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2017. Platome líftækni framleiðir lausnir úr blóðflögum sem notaðar eru til að rækta stofnfrumur og er markmið fyrirtækisins meðal annars að þróa nýjar leiðir í ræktun frumna sem nota má í frumumeðferðir og til grunnrannsókna.

Fyrirtækið er leiðandi í heiminum varðandi þessa tækni, þótt nýstofnað sé, en lausnirnar eru búnar til úr útrunnum blóðflögueiningum frá Blóðbönkum sem ella yrði fargað vegna þess að ekki er hægt að nota þær í læknisfræðilega meðferð.

Tveir stofnendur Platome standa við handrið í HR og horfa í myndavélinaÓlafur Eysteinn og Sandra Mjöll.

Stofnendur fyrirtækisins eru þau Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, lífeindafræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum, sem jafnframt er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, og dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sérfræðingur í frumulíffræði og ónæmisfræðum, dósent við Háskólann í Reykjavík og rannsóknarstjóri fyrirtækisins. Hugmyndin á bak við fyrirtækið kviknaði upp úr rannsóknarverkefni á rannsóknarstofu Ólafs og í sameiningu hafa hann og Sandra fært þá hugmynd af rannsókanrbekknum yfir í áhugaverða viðskiptahugmynd.

Í daga starfa tveir starfsmenn hjá fyrirtækinu, auk þess sem að fjórir nemendur vinna að rannsóknarverkefnum innan þess.