Fréttir eftir árum


Fréttir

Spurningar og svör fyrir nemendur vegna COVID-19

3.4.2020

Aðstaðan

Má ég nota aðstöðuna í HR til að vinna verkefni?

Nei. Nemendur í grunnnámi og meistaranámi mega ekki koma í bygginguna samkvæmt takmörkun heilbrigðisráðherra á skólastarfi vegna farsóttar. Það gildir líka um verklegt nám og verkefnavinnu.

Get ég notað aðstöðuna í HR til að stunda rannsóknir í verkefninu mínu?

Nei. Nemendur í grunnnámi og meistaranámi mega ekki koma í bygginguna samkvæmt takmörkun heilbrigðisráðherra á skólastarfi vegna farsóttar. Það gildir líka um verklegt nám og verkefnavinnu.

Íslenskir háskólar ákváðu samræmt að doktorsnemar falli undir starfsmenn háskólanna í þessu sambandi. Þeir eru eins og aðrir starfsmenn hvattir til að vinna heima.

Hversu lengi verður HR lokað?

Núverandi takmörkun heilbrigðisráðherra á skólastarfi vegna farsóttar gildir til 4. maí. Ekki er enn ljóst hvort hægt verður að opna skólann í maí að einhverju leiti eða hvort búast megi við að takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar verði framlengd.

Af hverju má starfsfólk koma í HR og kenna en ekki nemendur?

Starfsfólk HR hefur verið hvatt til að vinna sem allra mest heima við og flestir hafa farið að þeim tilmælum. Húsnæði og aðstaða háskóla eru þó aðgengileg starfsfólki þurfi það að nýta stofur til að streyma fyrirlestrum, aðstöðu til að taka upp fyrirlestra, eða nota gögn eða tæki sem ekki eru aðgengileg stafrænt.

Greining og veikindi

Hefur einhver í HR greinst með COVID-19?

Háskólinn heldur ekki saman miðlægri skrá yfir hvort nemendur eða starfsmenn hafi smitast, séu í sóttkví eða einangrun. Það er ekki vitað til þess að nokkur smit hafi komið upp í HR á meðan háskólinn var opinn. Miðað við tíðni sjúkdómsins má reikna með að einhverjir nemendur og starfsmenn hafi greinst síðan.

Mér finnst ég vera með einkenni COVID-19. Hvað á ég að gera?

Allar upplýsingar um sóttvarnir, sóttkví, einangrun, nýjustu fréttir af faraldrinum hér á landi og fleira er að finna á síðunni www.covid.is sem rekin er af Embætti landlæknis og Ríkislögreglustjóra.

Á síðunni www.covid.is kemur fram að ef þig grunar að þú sért með smit, ert með 38,5°C eða meira beinverki og hósta, skulir þú halda þig heima hafa samband í síma 1700, heilsugæsluna þína eða heilsuvera.is í gegn um netspjall. Heilbrigðisstarfsfólk verður þar til svara og ráðleggur þér um næstu skref. Það er mjög mikilvægt að þú farir ekki í eigin persónu á læknavakt eða heilsugæslu.

Ef nemandi getur ekki sinnt námi eða hluta náms vegna veikinda, sóttkvíar eða einangrunar af völdum COVID19, þá veitir HR viðkomandi allan þann sveigjanleika í náminu sem hægt er, m.a. með því að bjóða upp á að ljúka námskeiðum með „staðið“.

Vanti nemandi aðstoð frá sálfræðihjálp HR eða námsráðgjöf varðandi þætti sem snúa að námi þá er hægt að fá fjarfundi með námsráðgjafa með því að bóka tíma á www.ru.is/radgjof.

Ég þarf að sinna veikum ættingjum/börnum/mökum og hef ekki tíma til að læra. Hvað get ég gert?

Ef nemandi getur ekki sinnt námi eða hluta náms vegna eigin eða annarra veikinda, sóttkvíar eða einangrunar af völdum COVID19, veitir HR viðkomandi allan þann sveigjanleika í náminu sem hægt er, m.a. með því að bjóða upp á að ljúka námskeiðum með „staðið“. Dugi það ekki til, eru nemendur sem hafa lent í vandræðum vegna COVID-19 beðnir um að senda póst á vor2020@ru.is. Vilji nemandi fá aðstoð frá námsráðgjöf varðandi þætti sem snúa að námi þá er hægt að fá fjarfundi með námsráðgjafa með því að bóka tíma á www.ru.is/radgjof.

Námið

Hvaða áhrif hefur lokun háskóla á nám mitt?

Markmið HR er að lágmarka áhrif lokunar á framvindu náms. Ætlunin er að klára vorönn 2020 þannig að nemendur hafi öll sömu tækifæri og áður til að halda áfram námi, útskrifast og fara í framhaldsnám. Til þess hefur þurft að gera breytingar á mörgu, svo sem fyrirkomulagi kennslu, námsmati, tímasetningum prófa og fleiru. Engu að síður mun önnin klárast á réttum tíma og nemendur verða útskrifaðir í vor.

Aðstæður mínar til náms eru mjög breyttar vegna ástandsins. Hvaða sveigjanleika hef ég?

Háskólinn í Reykjavík veitir allan þann sveigjanleika sem hægt er að veita vegna áhrifa lokunar, samkomubanns og annars á nemendur. Til að draga úr álagi á þessum tímum býður HR nemendum þann valkost að ljúka námskeiði með einkunnina „staðið“, svo fremi að 50% námsmatsþátta sé lokið með viðunandi árangri. Nemendur hafa líka þann valkost að klára alla námsmatsþætti, þ.m.t. lokapróf ef við á, og fá tölulega einkunn. Ef nemendur uppfylla ekki skilyrði þess að fá einkunnina „staðið“, " og aðstæður koma í veg fyrir að þeir ljúki námskeiði þá geta þeir sagt sig úr námskeiði.

Nemendur sem hafa lent í sérstökum vandræðum vegna COVID-19, sem áðurnefnd úrræði leysa ekki úr, eru beðnir um að senda póst á vor2020@ru.is.

Verða sumarnámskeið haldin?

Það er ekki ljóst á þessari stundu.

Ég get ekki unnið að verkefninu mínu þar sem ég hef ekki aðgang að HR. Hvað get ég gert?

Ef þú heldur að slíkt eigi við um þig, hafðu samband við viðkomandi kennara eða skrifstofu viðkomandi deildar. Engir námsþættir sem krefjast viðveru í HR ættu að standa í vegi fyrir að nemendur ljúki sínum námskeiðum og námi á þessari önn.

Mun það að velja staðið/fallið hafa áhrif á möguleika mína á að sækja framhaldsnám við HR eða aðra háskóla?

Háskólar um allan heim eru að fást við sömu viðfangsefnin og HR. Viðbrögð HR eru á sömu nótum og hjá háskólum erlendis og hér á landi. Með því að fara sömu leiðir og aðrir háskólar vill HR tryggja að allir nemendur hafi áfram sömu tækifærin til framtíðar.

Hvernig eru aðrir háskólar að bregðast við ástandinu?

Það er misjafnt hvernig skólar erlendis eru að bregðast við ástandinu. Almennt virðast háskólar í Bandaríkjunum ganga lengra í að aðlaga nám og námsmat að núverandi aðstæðum en evrópskir háskólar. Við ákvarðanir Í HR hefur verið tekið mið af leiðum annarra háskóla s.s. MIT og Northwestern en jafnframt tekið tillit til aðstæðna nemenda í HR.

Í MIT hefur öll kennsla verið færð á stafrænt form og allir nemendur fá staðið/fallið einkunn fyrir þessa önn. Í Northwestern er bara fjarkennsla í gangi og öll verkefni og próf hafa verið gerð valkvæð. Í Georgetown er fjarkennsla og allir nemendur geta valið staðið/fallið ef þeir kjósa. Í Alberta er búið að færa allt á stafrænt form, fella niður næstum öll lokapróf og breyta einkunnafyrirkomulagi í staðið/fallið. Með því að fara sambærilegar leiðir og aðrir háskólar vill HR tryggja að nemendur hafi öll áfram sömu tækifærin til framtíðar.

Námsmat

Verða einhver próf tekin í HR byggingunni á þessari önn?

Nei, það verða engin próf tekin í HR byggingunni á þessari önn, jafnvel þó að takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar verði hætt á meðan á prófatíð stendur.

Hvenær þarf ég að ákveða hvort ég vilji fá „staðið“ eða hefðbundna einkunn?

Nemendur hafa til 12. apríl til að ákveða sig fyrir 12 vikna námskeið og til 30. apríl fyrir 15 vikna námskeið. Breytist aðstæður þeirra eftir það, þá geta þeir sent inn rökstudda beiðni um að fá „staðið“. í námskeiði fram að lokaprófsdegi.

Get ég áfram valið að taka próf og fá tölulega einkunn í námskeiði?

Já, þeir sem ekki velja „staðið“ og vilja frekar á tölulega einkunn munu taka próf í viðkomandi námskeiðum, ef við á . Nemendur sem velja „staðið“ taka ekki lokapróf.

Get ég tekið próf í sumum áföngum en valið „staðið“ í öðrum áföngum?

Já, nemendum er frjálst að velja að taka próf í sumum áföngum en fá „staðið“ í öðrum.

Hvern á ég að láta vita um það í hvaða námskeiðum ég vil fá „staðið“ og í hvaða námskeiðum ég vil ljúka hefðbundnara námsmati og fá einkunn?

Þú tilkynnir þetta með því að svara quiz-i inni á Canvas í hverju námskeiði fyrir sig.

Ég er bara búinn með helminginn af námsmati fyrir námskeið og er með meðaleinkunn sex. Get ég valið að fá "staðið" eða er ég bara með þrjá í einkunn fyrir námskeiðið?

Já, þú getur valið að fá „staðið“. Einstaklingar sem eru með fullnægjandi einkunn fyrir meirihluta námsmats geta fengið „staðið“ í stað hefðbundinnar einkunnar. Þú munt fá skilaboð í hverju námskeiði sem skýra stöðuna þar.

Í námskeiði sem ég er í, gildir lokapróf 60%, eða hærra. Get ég samt valið „staðið“?

Lokapróf mega nú ekki gilda meira en 50% í heildarnámsmati og aðlaga á öll námskeið í HR að því. Hafir þú ekki fengið tilkynningu um breytingar á námskeiði þar sem upphaflega var áætlað að lokapróf gilti meira en 50%, vertu í sambandi við viðkomandi kennara eða skrifstofu viðeigandi deildar.

Ég er að vinna lokaverkefni og á að klára í vor. Breytist námsmat fyrir lokaverkefni?

Það er í höndum hverrar deildar fyrir sig að ákveða hvernig sveigjanleiki verður veittur nemendum í lokaverkefnum. Þetta verður tilkynnt um mánaðamótin mars – apríl. Hafirðu ekki fengið upplýsingar fyrstu dagana í apríl skaltu spyrjast fyrir á skrifstofu deildar.

Ég er að vinna meistaraverkefni og á að klára í vor. Breytist námsmat fyrir meistaraverkefni?

Það er í höndum hverrar deildar fyrir sig að ákveða hvernig sveigjanleiki verður veittur nemendum í lokaverkefnum. Þetta verður tilkynnt um mánaðamótin mars – apríl. Hafirðu ekki fengið upplýsingar fyrstu dagana í apríl skaltu spyrjast fyrir á skrifstofu deildar.

Er hægt að fá „staðið“ í lokaverkefnum/ritgerðum?

Það er misjafnt milli deilda, því það er í höndum hverrar deildar fyrir sig að ákveða hvernig sveigjanleiki verður veittur nemendum í lokaverkefnum. Stefna skólans er skýr: Öllum nemum verður mætt með sveigjanleika vegna aðstæðnanna þessa vorönn og markmið HR er að gera nemum kleift að klára nám sitt. Það er hins vegar hverrar deildar að meta hvernig það verður best gert hvað snertir lokaverkefni og ritgerðir.

Má ég fara í próf og ef mér gengur ekki nógu vel, velja „staðið“ eftir á?

Nei, það er ekki gert ráð fyrir að fólk get valið „staðið“ eftir að hafa tekið lokapróf. Frestur til að velja staðið er til 12. apríl fyrir 12 vikna námskeið og til 30. apríl fyrir 15 vikna námskeið.

Ég er í starfsnámi en fyrirtækið sem ég var hjá er lokað. Hvernig verður námsmat fyrir starfsnám?

Fyrirkomulag starfsnáms er mismunandi eftir deildum og þær lausnir sem nemendum standa til boða því mismunandi. Nemendur sem eru í þessari stöðu skulu hafa samband við skrifstofu sinnar deildar. Stefna skólans er skýr: Öllum nemum verður mætt með sveigjanleika vegna aðstæðnanna þessa vorönn og markmið HR er að gera nemum kleift að klára nám sitt.

Útskrift, forsetalisti o.fl.

Verður útskrift í júní 2020?

Meginmarkið HR í þessum aðstæðum eru að klára námskeið annarinnar á réttum tíma og útskrifa þá sem eiga að útskrifast í sumar. Það er þó ekki ljóst hvort hvaða form verður á útskrift og hvort útskriftarathöfn verði haldin í Hörpu í júní eða mögulega síðar.

Verður forsetalisti á næstu önn?

Það verður ekki hefðbundinn forsetalisti á næstu önn, haustönn 2020, þar sem aðstæður koma í veg fyrir hefðbundið val á grunni námsárangurs á vorönn. Þegar núverandi ástand er yfirstaðið verður skoðað hvort einhverjar aðrar forsendur verði hægt að leggja til grundvallar annars konar viðurkenningum fyrir haustönn ársins 2020.

Get ég fengið afslátt af skólagjöldum fyrir vorönnina 2020?

Markmið HR er að klára önnina með eins litlum breytingum á námi og mögulegt er. Kennsla hefur verið færð á netið og nemendur njóta þjónustu HR á vefnum. Skólagjöld fyrir önnina munu því haldast óbreytt.

Umsóknarfrestir fyrir haustönn

Breytast umsóknarfrestir fyrir nám í haust?

Já, umsóknarfrestur fyrir nám í haust verður framlengdur. Umsóknarfrestur fyrir grunnnám verður 15. júní og fyrir meistaranám er fresturinn 20. maí. Þetta er sameiginleg ákvörðun menntamálaráðuneytisins og háskólanna.

Þjónusta HR

Get ég fengið lánaðar bækur af bókasafninu?

Nei, bókasafnið er lokað eins og önnur háskólabókasöfn.

Get ég fengið viðtal hjá námsráðgjafa?

Já, hægt er að panta viðtal hjá námsráðgjafa á síðunni www.ru.is/radgjof/ eða með því að senda tölvupóst á namsradgjof@ru.is

Ég finn að kvíði og stress eru farin að hafa mikil áhrif á mig. Get ég fengið viðtal hjá sálfræðingi?

Nemendur HR geta sótt sér sálfræðiþjónustu innan háskólans. Í því felst sálfræðiviðtal og sex vikna hópmeðferð við þunglyndi og kvíða fyrir þá nemendur sem þess óska. Þjónustan er veitt af sálfræðisviði HR í samstarfi við náms- og starfsráðgjöf háskólans. Nemendur sem hafa áhuga á að nýta sér þjónustuna geta sent tölvupóst á netfangið salfraedithjonusta@ru.is eða leitað til náms- og starfsráðgjafar HR sem vísar þeim sem taldir eru þurfa eða vilja fá sálfræðiþjónustu í viðtal hjá sálfræðingi.

Ef áhyggjur eru miklar er einnig hægt að leita til t.d. heilsugæslu eða sálfræðinga í heilbrigðiskerfinu. Einnig er 1717, Hjálparsími Rauða krossins, alltaf opinn.

Skiptinám

Ef ég er skiptinemi og sný aftur til míns heimalands hvað verður um námið mitt og einingarnar?

Háskólinn í Reykjavík mun gera það sem hægt er til að koma til móts við þá sem eru í þeirri stöðu og mun HR gera hvað hægt er til að þeir geti klárað sín námskeið á netinu.

Ég kom heim úr skiptinámi fyrr en áætlað var? Er önnin ónýt hjá mér?

Ef nemendur HR í skiptinámi ákveða að koma heim áður en þeir ná að ljúka sínum námskeiðum erlendis, þá verður þeim veittur allur mögulegur sveigjanleika og aðstoð sem þarf til að þau geti lokið þeim einingum sem þau ætluðu sér á önninni. Slíkir nemendur skulu strax setja sig í samband við sínar deildir til að hægt sé að vinna áætlanir til að ljúka þeirra námi á önninni.

Við hvern hef ég samband vegna áhrifa COVID-19 á skiptinámið mitt?

Skiptinemar sem koma heim ættu að vera í sambandi við skrifstofu sinnar deildar. Erlendir skiptinemar hér á landi ættu að setja sig í samband við alþjóðaskrifstofu.

Námslán

Vegna aðstæðna er ég ekki viss um að ég muni uppfylla framvindukröfur til að fá námslán fyrir vorönnina. Eru einhver úrræði fyrir mig?

Á heimasíðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna (www.lin.is) kemur fram að stjórn sjóðsins hafi vegna þess sveigjanleika sem allir þurfa að sýna á tímum COVID-19 heimilað sjóðnum að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en vottorðum fyrir loknar einingar. Nemar, sem lifa á námslánum en ekki ljúka lágmarksfjölda eininga geta því sótt um að fá lán engu að síður, og eru hvattir til þess.