Fréttir eftir árum


Fréttir

Staða mannauðsstjórans enn sterk

11.11.2015

Undanfarin ár hafa mannauðsstjórar fest sig í sessi sem hluti af æðsta stjórnunarteymi í fyrirtækum og stofnunum og ekki er að sjá að þeim hafi verið fórnað í kjölfar hruns. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum viðamikillar könnunar um stöðu og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi. 

Síðastliðinn föstudag kom út skýrsla sem greinir frá niðurstöðum könnunar sem gerð var í vor og er hluti alþjóðlega CRANET rannsóknarverkefnisins. Skýrslan var kynnt á fjölsóttum fundi í Háskólanum í Reykjavík. 

Gerðar hafa verið kannanir meðal forsvarsmanna mannauðsmála hér á landi á þriggja ára fresti frá árinu 2006. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild HR. 

Arney EinarsdóttirArney Einarsdóttir

Höfundar skýrslunnar eru Arney Einarsdóttir, lektor við viðskiptadeild og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvarinnar, Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild og Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent og stundakennari við viðskiptadeild. 

Undanfarin ár hafa mannauðsstjórar fest sig í sessi sem hluti af æðsta stjórnunarteymi í fyrirtækum og stofnunum. „Við sjáum ekki að þeim hafi verið fórnað í kjölfar hruns,“ segir Arney. „Enda væri það sérstakt ef sá sem fer með allt að 60% rekstrarkostnaðar situr ekki við borðið þar sem helstu ákvarðanir eru teknar og gjarnan varða starfsfólkið.“ Vísað er til þess að hjá hinu opinbera er launakostnaður um 60% af rekstrarkostnaði en minni í annari starfsemi og lægstur í frumvinnslu- og framleiðslugreinum. 

Samfélagsmiðlar í stað persónuleikaprófa

Aðrar niðurstöður sýna að merkja megi nokkra breytingu í ráðningarferlinu, en svo virðist sem fyrirtæki hér á landi noti samfélagsmiðla í auknum mæli í stað persónuleikaprófa. Það getur tæplega talist jákvæð þróun þar sem margt bendi til þess að slíkir miðlar séu óáreiðanlegir til að meta umsækjendur. Hætta er á að dregnar séu rangar ályktanir af upplýsingum á slíkum miðlum og að slíkar upplýsingar verði of ráðandi í ákvörðunartökunni um það hver er ráðinn.

Samráðsnefndir gætu verið góður kostur

Lagt er til að samráðsnefndir innan fyrirtækja sem tæki til þátttökustjórnunar séu skoðaðar betur. Það hefur komið í ljós að slíkar nefndir geta haft jákvæð áhrif á framleiðni, enda ákveðin leið til þátttökustjórnunar og til að virkja starfsfólk með í ákvörðunartöku. 

Gögnin nýtt til frekari rannsókna

Í framhaldi af könnuninni gefst rannsakendum, sem og meistaranemum í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði við viðskiptadeild HR, tækifæri til  að nýta gögnin úr CRANET-könnuninni til að svara ýmsum afmörkuðum rannsóknarspurningum. Í kjölfar gagnaöflunar meðal mannauðsstjóra fer fram gagnaöflun meðal starfsmanna og því hægt að skoða áhrif ýmissa aðgerða á sviði mannauðsmála á upplifun, viðhorf og hegðun starfsfólks.

Dæmi um rannsóknir næstu  missera:

  • Áhrif þroskastigs mannauðsstjórnunar á upplifun, viðhorf og hegðun starfsmanna
  • Áhrif kynjasamsetningar í fyrirtækjum á ánægju starfsmanna
  • Samspil jafnréttisaðgerða og upplifunar starfsfólks á jafnrétti

Þetta er í fjórða skiptið sem könnunin er gerð og birtast niðurstöður í ítarlegri skýrslu sem meðal annars nýtast mannauðsstjórum og öðrum sem stjórna starfsfólki í starfi. Gögnin úr könnuninni eru síðan nýtt áfram á næstu misserum við deildina til að svara ýmsum rannsóknarspurningum auk þess að þau mynda verðmætan grunn sem nýtist í margvíslegu alþjóðlegu og innlendu rannsóknarstarfi. Verkefnið er styrkt af fjármálaráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Staða mannauðsstjórnunarFundurinn í HR var afar vel sóttur og voru mannauðsstjórar í fyrirtækjum og stofnunum í miklum meirihluta.

Lesa um Rannsóknarmiðstöð í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild HR