Stærsta brautskráning Háskólans í Reykjavík frá stofnun
688 nemendur brautskráðir við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag
Aldrei hafa fleiri nemendur verið brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík og í dag, laugardaginn 20. júní, en þá brautskráðust 688 nemendur frá háskólanum við hátíðlegar athafnir í Hörpu. 479 nemendur brautskráðust úr grunnnámi og 209 úr meistaranámi. Í útskriftarhópnum voru 352 konur og 336 karlar. Vegna samkomutakmarkana var brautskráningunni skipt í tvær athafnir og voru nemendur tæknisviðs útskrifaðir fyrir hádegi og nemendur samfélagssviðs eftir hádegi.
Flest luku námi frá verkfræðifræðideild háskólans að þessu sinni, eða 154 nemendur, þar af 81 með meistaragráðu. Næststærsti hópurinn brautskráðist frá viðskiptadeild, eða 145 nemendur, þar af 50 með meistaragráðu. Frá tölvunarfræðideild brautskráðist 131 nemandi og 10 með meistaragráðu. Sálfræðideild útskrifaði 84 nemendur, þar af 23 með meistaragráðu. Lagadeild útskrifaði 80 nemendur, þar af 32 með meistaragráðu. Frá iðn- og tæknifræðideild útskrifuðust 49 nemendur og frá íþróttafræðideild 45, þar af 13 úr meistaranámi.
Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
Í ávarpi sínu til útskriftarnema lagði Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor, áherslu á að menntun væri nú og yrði jafnvel enn frekar í næstu framtíð undirstaða samkeppnishæfni og lífsgæða, bæði fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið allt:
Lykillinn að því að skapa sem mest verðmæti án þess að ganga á sameiginlegar auðlindir er að nýta menntun, þekkingu og nýsköpun. Á Íslandi eru gríðarleg tækifæri til að skapa betra samfélag þar sem jafnrétti, sanngirni, vellíðan og heilbrigði eru í fyrirrúmi. Um allan heim er tæknibylting einnig að skapa tækifæri til að gera meira og betur, á grunni sjálfvirkni, gervigreindar, gagnagreiningar, líftækni og margs fleira. Öll þessi tækifæri kalla á vel menntaða og hæfa einstaklinga og forsenda þess að geta nýtt þau, er geta til afla þekkingar og nýta hana til að finna nýjar lausnir. Menntun þarf að vera í takti við þarfir samfélagsins og í takti við þarfir nemenda sem eru mismunandi og alltaf að breytast og fjölbreytni og stöðug framþróun eru þess vegna forsendur öflugs háskólastarfs á Íslandi,
sagði hann m.a. í ræðu sinni.
Heiðar Snær Jónasson, MSc í rekstrarverkfræði og Ásgeir Ingi Valtýsson, BSc í viðskiptafræði fluttu ávörp fyrir hönd útskriftarnemenda. Verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi hlutu að þessu sinni: Andrea Borgþórsdóttir BSc í byggingartæknifræði, Ólafur Andri Davíðsson BSc í tölvunarfræði, Helena Sveinborg Jónsdóttir, BSc í vélaverkfræði, Haraldur Holgersson BSc í íþróttafræði, Hekla Bjarnadóttir BA í lögfræði, Elín Helga Lárusdóttir BSc í viðskiptafræði og Inga Katrín Guðmundsdóttir BSc í sálfræði.
Hægt er að horfa á upptöku frá brautskráningunni á vef HR.
Útskriftarhópurinn í tölum:
- Verkfræðideild 154
- Grunnnám 73, meistaranám 81. Konur 82, karlar 72.
- Viðskiptadeild 145
- Grunnnám 95, meistaranám 50. Konur 83, karlar 62.
- Tölvunarfræðideild 131
- Grunnnám 121, meistaranám 10. Konur 40, karlar 91.
- Sálfræðideild 84
- Grunnnám 61, meistaranám 23. Konur 68, karlar 16.
- Lagadeild 80
- Grunnnám 48, meistaranám 32. Konur 55, karlar 25.
- Iðn- og tæknifræðideild
- 49 úr grunnnámi, Konur 4, karlar 45.
- Íþróttafræðideild 45
- Grunnnám 32, meistaranám 13. Konur 20, karlar 25.