Fréttir eftir árum


Fréttir

Stærsta brautskráning HR frá stofnun

19.6.2016

641 nemandi brautskráðist frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær, laugardag. 443 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 196 úr meistaranámi og tveir nemendur útskrifuðust með doktorsgráðu. Um 3750 nemendur stunduðu nám við skólann á síðasta skólaári.

Flestir luku námi frá frá viðskiptadeild háskólans, eða 225 nemendur, þar af 107 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Úr tækni- og verkfræðideild háskólans útskrifuðust 211 nemendur, þar af 54 með meistaragráðu. Lagadeild útskrifaði 68 nemendur, þar af 33 með meistaragráðu. Tölvunarfræðideild útskrifaði 137 nemendur, þar af 2 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu

Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já ehf. og formaður Viðskiptaráðs Íslands, veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Þau hlutu að þessu sinni: Ólafur Valur Guðjónsson, BA í lögfræði; Tómas Arnar Guðmundsson, BSc í hugbúnaðarverkfræði, Vaka Valsdóttir, BSc í sálfræði og Ari Páll Ísberg, BSc í heilbrigðisverkfræði.

Fida Abu Libdeh, stofnandi og forstjóri GeoSilica Iceland og MBA frá HR árið 2015 flutti hátíðarávarp útskriftarinnar. Tómas Arnar Guðmundsson, BSc í hugbúnaðarverkfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Útskrifarhópurinn í tölum:

Lagadeild
Grunnnám 35, meistaranám 33, samtals 68
Tækni- og verkfræðideild
Grunnnám 157, meistaranám 54, samtals 211
Tölvunarfræði
Grunnnám 134, meistaranám 2, doktorsnám 1, samtals 137 
Viðskiptadeild
Grunnnám 117, meistaranám 107, doktorsnám 1, samtals 225 

13433227_10153487711165672_6695824827803631480_o

Í ávarpi sínu til útskriftarnema fjallaði Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, meðal annars um mikilvægi þess að fjárveitingar til háskóla á Íslandi verði sambærilegar við það sem gerist í nágrannalöndunum: 

„Vegna mikilvægis háskólastarfs fyrir framtíð Íslands hefur vísinda- og tækniráð, undir formennsku forsætisráðherra, samþykkt að íslenskir háskólar skuli vera jafn vel fjármagnaðir og norrænir háskólar árið 2020, en í dag vantar um helming þar upp á. Fjármögnun í takt við okkar nágrannalönd er forsenda þess að háskólar geti sinnt þörfum framtíðarinnar og stutt við hagvöxt. En því miður er það svo að nýsamþykkt fimm ára fjárhagsáætlun stjórnvalda er í hróplegu ósamræmi við þessi markmið, því þar er litlu bætt við fjármögnun háskóla. Þetta verður að laga, samkeppnishæfni Íslands til framtíðar er að veði.“

Ari sagði enn fremur frá því að niðurstöður árlegrar könnunar meðal útskriftarnema HR sýndu að atvinnustaða þeirra væri mjög sterk og viðhorf nemenda til námsins í HR væri mjög jákvætt. Meðal útskriftarhópsins í vor eru 84% þeirra sem stefna á vinnumarkaðinn þegar komnir með vinnu. Einnig telja 81% þeirra að nám við HR hafa undirbúið þá vel eða mjög vel fyrir þátttöku í atvinnulífinu.