Fréttir eftir árum


Fréttir

Stærsta nýsköpunarnámskeið landsins

3.5.2021

Nýsköpun og stofnun fyrirtækja er eitt af svokölluðum þriggja vikna námskeiðunum í Háskólanum í Reykjavík og það sem er hvað best þekkt. Námskeiðið hefur verið þróað yfir mörg ár innan viðskiptadeildar HR og hefur jafnvel verið fyrirmynd háskóla í Kanada að sambærilegu námskeiði. 

Í námskeiðinu í ár taka þátt yfir 620 nemendur í BA- og BSc-námi úr öllum deildum og mynda 125 teymi þvert á námsbrautir. Námskeiðið er haldið á netinu þetta árið vegna samkomutakmarkana. 

Hugmyndirnar í ár

Strax á fyrstu dögum námskeiðsins verða nemendur að setja fram sína hugmynd. Sumir hópar vilja nýta íslenskar afurðir til að framleiða prótein og sólarvörn, hugmyndir um tæknilausnir og öpp fyrir deilihagkerfið eru áberandi ásamt lausnum sem nýtast til að minnka matarsóun og kolefnisfótspor einstaklinga. Nemendur hafa komið með hugmyndir sem nýtast íslenskri ferðaþjónustu til að gera markaðssetningu hnitmiðaðri og til að stýra aðgengi að náttúruperlum. 

Hugvitið ræður för og nemendur reyna að skilja hvar þörfin er, til dæmis gengur ein hugmyndin út á hárgreiðslustofu á hjólum og nokkrar hugmyndir nýtast elstu kynslóðinni sérstaklega, eins og öryggishnappur sem hægt er að fela í skartgripum.

Nemandi situr í Sólinni og brýtur heilann

Það þarf að brjóta heilann þegar setja á fram viðskiptaáætlun á aðeins þremur vikum. Myndin er tekin á síðasta námskeiðinu fyrir Covid-faraldurinn en í ár er námskeiðið á netinu. 

Deila erfiðleikum og sigrum

Eitt einkenni námskeiðsins frá byrjun hefur verið framúrskarandi ráðgjöf frá þeim sem þekkja nýsköpunarferlið hvað best. Í ár er engin undantekning þar á. Nemendur njóta þess að hafa leiðbeinendur sem eru búnir að ganga í gegnum nýsköpunarverkefni og þekkja frumkvöðlaumhverfið, áskoranir þess og þann stuðning sem er í boði. 

Í ár stýrir námskeiðinu Svava Björk Ólafsdóttir sem hefur yfir sjö ára reynslu úr stuðningsumhverfi frumkvöðla og er stofnandi RATA og Hacking Hekla. Með henni í kennarateyminu eru Einar Þór Gústafsson, Haraldur Hugosson, Dóróthea Ármann og Gabríela Jóna Ólafsdóttir.

Gestafyrirlesarar koma svo inn í dagskrána og hvetja nemendur áfram með því að segja frá sinni reynslu, því góða og því slæma, sigrum og mistökum. Gestafyrirlesararnir í ár eru meðal annarra:  

  • Guðmundur Hafsteinsson stofnandi Fraktal
  • Stefanía Bjarney stofnandi Avo
  • Hilmar Veigar stofnandi CCP
  • Áslaug Magnúsdóttir stofnandi Katlaforce
  • Magnús Scheving stofnandi Lazytown
  • Óskar Þórðarson stofnandi Omnom
  • Hjálmar Gíslason stofnandi Grid
  • Davíð Helgason stofnandi Unity
  • Elísabet Grétarsdóttir hjá EA games

Nemendur fá einnig ráðgjöf frá Heklu Arnardóttir hjá Crowberry Capital og Atla Björgvinssyni hjá Icelandic Startups, ásamt fleirum.

Uppbygging námskeiðsins

Nemendur byrja á að fara í gegnum hugarflug og móta viðskiptahugmynd og fá endurgjöf frá kennurum og mentorum. Því næst, í viku tvö, er farið í gegnum hönnunarsprett þar sem þróuð er frumgerð að lausninni. Í viku þrjú er fókus á viðskiptatækifærið og teymin setja fram viðskiptaáætlun fyrir nýja vöru eða þjónustu og kynna fyrir dómnefnd sem skipuð er fjárfestum, reyndum frumkvöðlum og sérfræðingum úr atvinnulífinu.

Markmiðið er að nemendur kynnist frumkvöðlaumhverfinu, fræðist um stofnun fyrirtækja, markaðssetningu og sölu, sjálfbærni, hönnun, fjármögnun og fjárfestingar og fleira og séu búnir frumkvöðlaþekkingunni sem veganesti sem nýtist þeim, og íslensku samfélagi, út starfsævina.

Þriggja vikna námskeið Háskólans í Reykjavík 

Kennslufyrirkomulagið í grunnnámi í HR sker sig úr því sem þekkt er við aðra háskóla á Íslandi. Námskeið eru kennd fyrstu tólf vikur annar og að loknu námsmati úr þeim taka við námskeið í þrjár vikur sem eru hagnýtar vinnustofur eða úrlausn raunverulegs verkefnis.