Fréttir eftir árum


Fréttir

Stafrænt vinnuumhverfi bætt með rannsóknum

18.6.2019

Marta Kristín Lárusdóttir, dósent við tölvunarfræðideild, mun næstu þrjú árin vinna að rannsókn sem miðar að því að bæta stafrænt vinnuumhverfi.

Hún vinnur að rannsókninni ásamt Åsa Cajander sem er prófessor við Háskólann í Uppsala í Svíþjóð. Þær eru báðar meðlimir rannsóknarhópsins Health,Technology and Organisation við Uppsala háskóla og hlutu nýlega styrk úr rannsóknasjóði tryggingafélagsins AFA Forsäkring að upphæð tæplega 50 milljónir króna en félagið vinnur ötullega að forvörnum á atvinnumarkaði. Rannsóknarverkefnið hefur fengið nafnið STRIA.

Marta Kristín Lárusdóttir stendur við handrið í SólinniMarta Kristín vill bæta vinnuumhverfi fólks í atvinnulífinu, en sumir þurfa að nota allt að 20 kerfi á einum degi í vinnunni.

Notum hátt í 20 tölvukerfi daglega

Marta Kristín stundar rannsóknir og kennir námskeið á sviði notendamiðaðrar hugbúnaðargerðar. „Við ætlum að taka fyrir þrjár þekktar aðferðir sem eru notaðar í hugbúnaðargerð og breyta þeim til að gera vinnuumhverfi betra. Við víkkum þar með notkun þeirra með því að taka tillit til hins stafræna umhverfis starfsfólks.“ Hún hefur gert rannsóknir með þátttöku íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja.

„Sérfræðingar hjá hugbúnaðarfyrirtækjum hugsa mikið um hugbúnaðinn út því hvað notendur geta gert, hverjar gæðakröfurnar séu og öryggiskröfur. Eðlilega er fókusinn hjá sérfræðingunum á það kerfi, sem þeir eru sjálfir að búa til. Þá gleymist oft að notendur þess kerfis nota jafnvel hátt í 20 önnur kerfi daglega. Við viljum auka skilning hugbúnaðarsérfræðinganna á því hversu fjölbreytt stafrænt vinnuumhverfi notenda getur verið, og teljum að það muni auka gæði kerfanna, ef tekið er tillit til stafræns vinnuumhverfis við gerð þeirra. Við viljum hjálpa hugbúnaðarsérfræðingum að skilja aðstæður notenda betur.“

Notendavæn kerfi eru söluvænni kerfi

Åsa og Marta Kristín gerðu könnun innan Háskólans í Uppsala þar sem þær tóku viðtöl við starfsmenn sem jafnvel voru að nota 18 kerfi daglega. „Notkun á svona mörgum tölvukerfum býður upp á flækjur og rugling en við viljum að forrit séu þjál fyrir notendur. Að taka tillit til þessa í hugbúnaðarþróun ætti að vera betra fyrir þá sem smíða kerfin þar sem notendavæn kerfi eru söluvænlegri kerfi. Notandinn þarf alltaf að vera í fyrsta sæti.“

Stór hluti rannsóknarinnar er hagnýtur, þar sem Marta Kristín og Åsa eru með samstarfsaðila í Svíþjóð. Í sameiningu munu þau búa til kennsluefni fyrir hugbúnaðarfyrirtæki, til að auðvelda starfsmönnum þeirra að tileinka sér þær nýju aðferðir, sem verða afrakstur verkefnisins. „Það er okkar helsta markmið að auka skilning hugbúnaðarsérfræðinga á bættu stafrænu vinnuumhverfi og hvað það þýðir – hvaða kerfi er verið að nota og hvernig þau passa saman? Er verið að nota sömu orðin yfir sömu hlutina milli kerfa? Það eru svo ótal margir hlutir sem hægt er að laga með lítilli fyrirhöfn og við viljum einfaldlega byrja á því að koma þessari hugsun inn hjá hugbúnaðargeiranum.“

Um STRIA

Til að lesa meira um rannsóknina, eru upplýsingar á vefsíðu HTO rannsóknarhópsins: www.htogroup.org undir STRIA.