Fréttir eftir árum


Fréttir

Starfsmenn HR hljóta verðlaun fyrir rannsóknir, kennslu og þjónustu

Verðlaun Háskólans í Reykjavík 2020 afhent

6.12.2020

Verðlaun Háskólans í Reykjavík voru afhent í gær, laugardag. Þau eru veitt árlega, starfsmönnum háskólans sem þykja hafa skarað fram úr í rannsóknum, kennslu og þjónustu. Verðlaunin í ár hlutu Dr. Jack James, prófessor við sálfræðideild; Steinunn Gróa Sigurðardóttir, háskólakennari við tölvunarfræðideild og Stefanía Guðný Rafnsdóttir, starfsmaður fjármála.

Verðlaunin voru veitt við óvenjulegar aðstæður að þessu sinni vegna samkomutakmarkana. Verðlaunahafar fengu verðlaunin afhent utan við heimili sín og athöfnin var hluti af dagskrá stafræns jólahlaðborðs starfsmanna háskólans.

Verðlaun HR voru fyrst veitt árið 2010. Nemendur og starfsmenn senda inn tilnefningar til verðlaunanna en val á verðlaunahöfum er í höndum dómnefnda sem styðjast við upplýsingar um kennsluferil, kennslumat, rannsóknarmat, ferilskrá og fleira.

Rannsóknaverðlaun - Dr. Jack James

Við veitingu rannsóknaverðlauna er meðal annars tekið mið af birtingum á ritrýndum vettvangi, framlagi til alþjóðlegs vísindasamfélags, þjálfun nemenda í rannsóknum, öflun styrkja og tengingu rannsókna við atvinnulíf og samfélag.

Jack-JamesDr. Jack James tekur á móti Rannsóknaverðlaunum HR

Dr. Jack James, verðlaunahafi ársins 2020, hefur birt yfir 100 vísindagreinar í ritrýndum tímaritum, skrifað þrjár ritrýndar bækur og níu ritrýnda bókarkafla. Hann hefur leiðbeint fjölda nýdoktora, doktorsnema, meistaranema og grunnema og hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu stafi, meðal annars með ritstjórn vísindatímarita.

Kennsluverðlaun - Steinunn Gróa Sigurðardóttir

Við veitingu kennsluverðlauna er horft til fjöldamargra þátta í kennslu, þar með talið nýsköpunar í skipulagi og hönnun námskeiða, þróun nýrra námskeiða, notkun fjölbreytts námsmats, notkun upplýsingatækni, skipulags, tengsla við nemendur, gerðar kennsluefnis og margs fleira.

Steinunn Gróa SigurðardóttirSteinunn Gróa Sigurðardóttir tekur á móti kennsluverðlaunum HR

Steinunn Gróa hefur verið brautryðjandi í framþróun kennsluhátta við háskólann. Hún hefur einstakt lag á að koma flóknum hugtökum skýrt til skila og er alltaf tilbúin til að hjálpa nemendum og svara spurningum þeirra. Í tilnefningum nemenda kom meðal annars fram að hún taki mikið tillit til hugmynda og athugsemda nemenda og að hún hafi einstaklega fljótt og vel aðlagað kennsluna að nýjum aðstæðum vegna Covid.

Þjónustuverðlaun - Stefanía Guðný Rafnsdóttir

Við veitingu þjónustuverðlauna er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts, frumkvæðis, tengsla við starfsmenn og nemendur, samstarfs við önnur svið HR, þekkingu og færni á fagsviði.

Stefania Guðný RafnsdóttirStefanía Guðný Rafnsdóttir tekur á móti Þjónustuverðlaunum HR 

Stefanía sinnir innheimtu skólagjalda sem er ekki sýnilegasta hlutverkið í þjónustu háskólans, en hún gerir það af samviskusemi og með þolinmæði. Nemendur eru þakklátir fyrir gott viðmót og lausnamiðaða hugsun og samstarfsmenn njóta góðrar samveru, snerpu, nákvæmni og jákvæðni.