Starfsmöguleikarnir kannaðir á Framadögum háskólanna
Hinir árlegu Framadagar AISEC á Íslandi voru haldnir í Sólinni í HR í gær, þann 9. febrúar. 84 fyrirtæki tóku þátt að þessu sinni og viðburðinn sóttu þúsundir gesta. Á Framadögum gefst háskólanemum færi á að spjalla við fulltrúa fjölmargra fyrirtækja og stofnana og þar með fá innsýn í störf sem gætu biðið þeirra að námi loknu.
Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem setti Framadaga 2017 kl. 10. Hann gaf sér að setningu lokinni góðan tíma til að rölta á milli kynningarbása og spjalla við fulltrúa AISEC á Íslandi og þeirra fyrirtækja sem tóku þátt. Dagskráin stóð svo yfir í HR til kl. 17 en boðið var upp á rútuferðir frá Háskóla Íslands svo að sem flestir háskólanemar gætu sótt Framadaga heim.
Gestir Framadaga gátu þar að auki sótt fróðlega fyrirlestra um gerð ferilskrár, leiðtogastíl, jafnrétti á vinnumarkaði, nýsköpun og bauðst endurgjaldslaus ráðgjafaþjónusta frá leiðandi fyrirtækjum á sviði atvinnumiðlunar.
AIESEC eru alþjóðleg nemendasamtök sem starfrækt eru í meira en 125 löndum. Samtökin sjá um framkvæmd og skipulagningu Framadaga ár hvert.