Fréttir eftir árum


Fréttir

Samgöngumáti starfsmanna HR hefur tekið miklum breytingum

29.11.2016

Starfsmenn Háskólans í Reykjavík hafa breytt fararvenjum sínum svo um munar eftir að háskólinn hóf að bjóða starfsmönnum að skrifa undir svokallaðan samgöngusamning. 86 fastráðnir starfsmenn HR hafa skrifað undir slíkan samning. Í vinnustaðagreiningu HR sem framkvæmd er annað hvert ár og var lögð fyrir á haustmánuðum kemur fram að helmingi fleiri ferðast núna með strætisvögnum eða gangandi og hjólandi í vinnuna en fyrir þremur árum.

Ferðavenjur starfsmanna hafa því breyst verulega á þremur árum. Árið 2013 ferðuðust 83% starfsmanna HR einir til vinnu í einkabíl en árið 2016 er þetta hlutfall komið niður í 62%. Þeim starfsmönnum sem nota einkabílinn sjaldnar en einu sinni viku fjölgar í 12% miðað við 8% árið 2013.

100% fleiri nota Strætó

Þeir starfsmenn sem nýta sér þjónustu Strætó 3-5 sinnum í viku eru núna 6% sem er 100% aukning frá því árið 2013 en þá var hlutfallið 3%. Sama er hægt að segja um fótgangandi eða hjólandi starfsmenn; nú koma 6% starfsmanna með þessum hætti í vinnuna en voru einmitt líka 3% fyrir þremur árum. Könnunin er lögð fyrir alla fastráðna starfsmenn en undanskildir eru stundakennarar. Fastir starfsmenn eru um 240 og var svarhlutfallið 78%.

Unnið að markmiðasetningu

Háskólinn í Reykjavík hefur skrifað undir loftslagssáttmála Reykjavíkur og Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð og þar með skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hópur starfsmanna vinnur að því að meta stöðuna innan háskólans til að geta sett markmið í þessum málum til ársins 2030. Könnun á ferðavenjum starfsmanna var hluti þeirrar vinnu. Nú þegar hefur verið ráðist í aðgerðir varðandi magn sorps sem fellur til í starfsemi HR meðal annars með því að minnka notkun plasts hjá nemendum og starfsfólki.

Mynd sem sýnir ylströndina við Nauthólsvík