Fréttir eftir árum


Fréttir

Starfsnám erlendis veitir nemendum HR forskot

7.6.2017

Rektorar Háskólans í Reykjavík og University of Southern Maine (USM) í Bandaríkjunum hafa skrifað undir samning um stúdentaskipti milli háskólanna tveggja sem innifelur starfsnám erlendis.

Fyrsta samstarfsfyrirtæki HR og USM er Eimskip, en nemendur USM geta þannig lokið starfsnámi hjá Eimskip í Reykjavík og nemendur HR geta tekið starfsnám hjá Eimskip í Portland, sem er í Maine-fylki í Bandaríkjunum. Líkt og verið hefur í samstarfi HR við atvinnulífið mun starfsnám erlendis, sem hluti af skiptinámi, verða metið til eininga.

Fá sem mest út úr háskólanáminu

Markmið með samningnum er meðal annars að veita nemendum HR tækifæri sem þeir annars myndu ekki eiga færi á að nýta sér. „Möguleikar nemenda á að fá starf að lokinni útskrift skipta okkur afar miklu máli. Þar vega sterkar tengingar HR við atvinnulífið þungt, enda ná nemendur meðal annars í gegnum starfsnám að byggja upp tengsl í atvinnulífinu um leið og þeir fá starfsreynslu í ferilskrána,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri tengsla hjá Háskólanum í Reykjavík.

„Þegar dýrmæt starfsreynsla fer saman við skiptinám í spennandi borg, er komið enn eitt tækifæri fyrir nemendur HR að gera sem mest úr háskólanáminu. Á alþjóðlegum vinnumarkaði er samkeppnin um sérfræðistörf hörð en með því að nýta vel þá möguleika sem HR veitir nemendum sínum geta þeir gert heilmikið til að byggja upp góða ferilskrá meðan á námi stendur.“

Portland borg í Maine fylkiPortland í Maine.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir ákvörðun fyrirtækisins um að hafa viðkomu með skip sín í Ameríkusiglingum hafa haft góð áhrif á samskipti Íslands og Maine-fylkis. „Við fögnum því að nú eigi að hefjast aukin samskipti milli Háskólans í Reykjavík og University of Southern Maine í gegnum starfsnám.“

Skiptinám sem innifelur starfsnám er hluti af áætlun Háskólans í Reykjavík og USM um víðtækt samstarf en fyrir um einu og hálfu ári síðan var skrifað undir samstarfssamning milli háskólanna tveggja.