Fréttir eftir árum


Fréttir

Starfsnám lögfræðinema til umræðu á málþingi Lögréttu

23.3.2016

Lögrétta, félag laganema við HR og Bandalag háskólamanna, stóðu í gær fyrir málþingi um starfsnám laganema. Fram kom að starfsnám væri mikilvægur og jákvæður hluti náms í lögfræði líkt og í öðrum námsgreinum. Nauðsynlegt væri að vel væri haldið utan um það af hálfu háskóla  og skýrt þyrfti að vera að um nám væri að ræða en ekki möguleika fyrir fyrirtæki til að fá ókeypis eða ódýrt sérfræðivinnuafl. Á fundinum kom m.a. fram við lagadeild HR eru mjög skýrar reglur um starfsnám sem miða að því að það nýtist nemendum sem best í sínu námi. 

Framsögumenn á þinginu voru fjórir. Hörður Þór Jóhannsson laganemi gerði grein fyrir reynslu sinni af starfsnámi sem hluta náms við HR, sem hann taldi vera mjög mikilvægt. María Kristín Gylfadóttir, stjórnandi Landsskrifstofu Erasmus+ fjallaði um mikilvægi starfsnáms fyrir einstaklinga og atvinnulífið. Helga Melkorka Óttarsdóttir, hrl., framkvæmdarstjóri LOGOS velti m.a. fyrir sér hvort inntak starfsnáms væri nám, starf eða greiði og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Stéttarfélags lögfræðinga talaði um stöðu laganema og nýútskrifaðra lögfræðinga á vinnumarkaði.

Fjallað er um starfsnám í 14. gr. reglna um meistaranám við lagadeild HR, og starfsnám við HR er ígildi 7,5 eininga meistaranámskeiðs. Starfsnámið er hluti af námi viðkomandi nemenda og um það gilda sambærilegar gæðakröfur og um önnur námskeið. Markmiðið með starfsnámi er að auka gæði námsins og tengja það við atvinnulífið, í samræmi við stefnu Háskólans í Reykjavík. Námið byggir á samningum lagadeildar HR við viðkomandi fyrirtæki og stofnanir og yfir náminu er umsjónarmaður af hálfu lagadeildar og annar af hálfu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Í dag eru í gildi nokkrir tugir slíkra starfsnámssamninga.