Fréttir eftir árum


Fréttir

Starfsnám orðið skyldufag í byggingartæknifræði

6.12.2016

Þriðja árs nemar í byggingartæknifræði sýndu nýlega afrakstur starfsnáms síns hjá 11 fyrirtækjum en þetta var í fyrsta sinn sem nemendur luku starfsnáminu sem skyldufagi. Hera Grímsdóttir er sviðsstjóri byggingasviðs tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hún segir starfsnám sem skyldufag vera það sem koma skuli í byggingartæknifræðinni enda sé það svipað fyrirkomulagi við erlenda háskóla.

Fjölbreytt og áhugaverð nemendaverkefni

Nemendurnir luku starfsnámi hjá verkfræðistofum, verktakafyrirtækjum og fasteignafélögum, meðal annars. Fyrirtækin voru: Límtré Vírnet, Reitir, Ístak, Hnit, BEKA, EFLA, VSÓ, Ferli og Mannvit. „Verkefnin voru mjög fjölbreytt og nemendur lærðu heilmikið,“ segir Hera. Fulltrúar fyrirtækjanna voru einnig mjög ánægð með verkefnin að hennar sögn. „Það eru allir ánægðir með starfsnámið, bæði fyrirtækin og nemendurnir sjálfir enda kynnast þeir því að vinna að verkefnum í hröðu og síbreytilegu umhverfi. Með starfsnáminu undirbúa nemendur sig enn betur fyrir atvinnulífið og fá ómetanlega innsýn í þau fjölmörgu viðfangsefni sem byggingartæknifræðingar eru að fást við. Við erum í góðu sambandi við fyrirtæki en það má alltaf gera betur.“

Meðal verkefna nemenda voru:

  • Gerð 30 ára viðhaldsáætlunar
  • Göngu- og hjólabrú á Hvammstanga
  • Hönnun mannvirkis úr ArcCels-forsteyptum einingum
  • Verkefnastjórnun og áætlunargerð fyrir vélahús
  • Gamli Kvennaskólinn - Burðarvirkisgreining

 Sviðsstjóri og nemendur í byggingartæknifræði stilla sér upp í hóp fyrir ljósmyndara

Hera ásamt meirihluta þeirra nemenda sem nýlokið hafa starfsnámi

Gera sér betur grein fyrir áhugasviðinu

Hera segir annan stóran kost við starfsnámið vera að nemendur ljúki því áður en þeir velja sér fög og lokaverkefni á síðustu tveimur önnunum. Með því að ljúka starfsnáminu viti nemendur betur á hverju þeir hafi áhuga innan sviðsins og geti hagað valinu eftir því. Nemendum gefst kostur á nokkurri sérhæfingu í náminu, eins ogí  burðarvirkjahönnun, framkvæmdastjórnun, vegagerð og lagnahönnun. Til að auka fjölbreytni í námsframboði er einnig hægt að velja einstök námskeið úr verkfræði, viðskiptafræði eða tölvunarfræði.

Nemendur við HR ljúka BSc-námi í byggingartæknifræði að öllu jöfnu á þremur og hálfu ári. Í náminu fást þeir meðal annars við öll stig verkferils eins og frumhönnun og greiningu, hönnun og teiknun, undirbúning framkvæmda með gerð útboðsgagna, verk- og kostnaðaráætlana, auk framkvæmdaeftirlit og verkstýringu.