Fréttir eftir árum


Fréttir

Stelpur og tækni í HR

Konur hvattar til náms í tæknigreinum

18.5.2022

Stelpur og tækni, einn stærsti viðburður Háskólans í Reykjavík, fer fram á morgun, fimmtudaginn 19. maí. Þá munu nærri 750 stelpur úr 9. bekkjum 27 grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu heimsækja Háskólann í Reykjavík og fjölda fyrirtækja í tæknigeiranum.

Dagurinn hefst með vinnusmiðjum í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Eru viðfangsefnin af ólíkum toga en eftir að vinnustofunum lýkur eru tæknifyrirtæki heimsótt. Þar er gefin innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi og konur sem starfa hjá fyrirtækjunum deila reynslu sinni.

Fagkona-025A5353

Stelpurnar fá að kynnast konum í tæknistörfum og tæknifögum innan háskólans.

 

Nærri 25 fyrirtæki taka á móti hópum þennan dag en meðal þeirra má nefna CCP Games, Landsvirkjun, Valitor, Nox Medical og Kolibri. Viðburðurinn er liður í því að hvetja konur til náms í tæknigreinum en stelpurnar fá að kynnast konum í tæknistörfum og tæknifögum innan háskólans. Markmiðið er að vekja áhuga þeirra á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.