Fréttir eftir árum


Fréttir

Stelpur um allt land kynntu sér forritun og tækni

20.5.2021

Stelpur og tækni fór fram í Háskólanum í Reykjavík 19. maí. Um 800 stelpur í 9. bekk úr 40 skólum víðsvegar um landið tóku þátt. Markmiðið með deginum, sem var nú haldinn í 8. skipti, er að hvetja stelpur til náms í tæknigreinum. 

Dagskráin gengur út á að vekja áhuga stelpnanna á möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.

Prófuðu að forrita

Stelpurnar fengu innsýn í störf kvenna í tæknigeiranum og kennslu í forritun. Þær fengu meðal annars að spreyta sig við að búa til tölvuleiki undir handleiðslu þjálfara Skema og /sys/tra, sem er félag stelpna í tölvunarfræði í HR. Verkefnin féllu vel í kramið hjá stelpunum sem voru afar áhugasamar og forrituðu af miklum myndarbrag. Þegar verkefnin höfðu verið leyst var opnað fyrir spurningar og ljóst er að áhuginn á forritun hefur sannarlega vaknað við að leysa verkefnin, hafi hann ekki verið til staðar fyrir.

Kona kennir í gegnum fjarfundabúnað

Fjarfundabúnaðurinn nýttur vel

Annað árið í röð var viðburðurinn haldinn alfarið á netinu og var notast við fjarfundabúnað sem var flestum nýstárlegur í fyrra en nú var greinilegt á bæði kennurum og nemendum að þessi samskiptamáti er orðinn fólki tamur. 

Fjarfundabúnaðurinn gaf fleiri skólum út um land allt tækifæri til að taka þátt í viðburðinum en áður og ljóst að haldið verður áfram að bjóða upp á viðburðinn á netinu, þó vonandi verði hægt að halda hefðbundnari viðburð í raunheimum einnig, að ári.

Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík ásamt Ský og Samtök iðnaðarins en dagurinn er haldinn að fyrirmynd „Girls in ICT Day“, verkefnis á vegum Evrópusambandsins.