Fréttir eftir árum


Fréttir

Stóðu sig með glæsibrag í alþjóðlegum fjármála- og fjárfestingakeppnum

24.2.2021

Nemendur Háskólans í Reykjavík luku nýlega þátttöku í tveimur alþjóðlegum viðskiptakeppnum á vegum viðskiptadeildar, Rotman fjármálakeppninni í Kanada og BI raundæmakeppninni í Osló.

Nemendurnir sem tóku þátt í hinni þekktu Rotman-keppni lentu í 21. sæti af 45. HR tók nú þátt í keppninni í þriðja sinn og hefur þurft að etja kappi við stærstu viðskiptaháskóla heims, eins og Harvard sem hefur tekið þátt í fjölda ára. Liðsmenn voru nemendur viðskiptadeildar og verkfræðideildar. Þátttaka HR í keppninni er styrkt af Nasdaq, Kviku, Landsbankanum, Icelandair og Íslandsbanka.

Davíð Scheving Thorsteinsson, nemi í fjármálaverkfræði, var í liði HR í keppninni og segir að það hafi verið lærdómsríkt og mjög skemmtilegt að etja kappi við nemendur úr mörgum af stærstu fjármálaskólum heims. „Keppnin samanstóð af þremur verkefnum, þar sem við þurftum t.d. að forrita trading algorithma og að framleiða, vinna og eiga viðskipti með hráolíu. Okkur gekk virkilega vel í ár og lentum fyrir ofan skóla á borð við Harvard, Boston University og UCLA. Heilt yfir gaf keppnin okkur góða innsýn í hvernig það er að starfa á fjármálamörkuðum, þá sérstaklega á tímum faraldurs. Reynslan er dýrmæt og upplifunin án efa ógleymanleg.“

Í BIIC raundæmakeppni BI, norska viðskiptaháskólans, var lið HR í öðru sæti í tveggja riðla keppni. Þar tóku þátt viðskiptaháskólar og viðskiptadeildir háskóla á Norðurlöndunum í alls átta liðum. Lið HR stóð sig frábærlega og skaut mörgum þekktum norrænum háskólum ref fyrir rass. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendur HR taka þátt í raundæmakeppninni og þurftu að skrá sig með litlum fyrirvara. 

Elín Helga Lárusdóttir, viðskiptafræðinemi, var í liði HR í BIIC keppninni og segir það hafa verið heiður að hafa verið valin í þátttökuteymi skólans og fengið þetta tækifæri. „Keppnin var sannarlega mikil áskorun en að sama skapi mjög góð reynsla fyrir okkur sem kepptum og frábært tækifæri til að sanna hæfni og hæfileika okkar í að finna og útfæra lausnir. Góður liðsandi, skapandi hugsun, lausnamiðuð og góð samvinna skilaði teyminu okkar mjög góðum árangri og betri en ég átti von á. Þessi lærdómur á eftir að skila sér í reynslubankann og hvet ég alla sem fá þetta tækifæri að vera með.“

Við óskum nemendunum í báðum liðum til hamingju með þennan glæsilega árangur. 

Sjá einnig:

„Taka þátt í alþjóðlegum keppnum í fjárfestingu og viðskiptum“ 

Meðlimir keppnisliða HRLiðin tvö sem tóku þátt. Flestir liðsmanna eru úr viðskiptadeild en í Rotman-keppninni koma jafnan að nemendur úr verkfræðideild.