Fréttir eftir árum


Fréttir

Stofna félag doktorsnema við HR

10.1.2017

Doktorsnemar innan Háskólans í Reykjavík hafa stofnað félag með það að markmiði að gera störf sín sýnilegri innan háskólans og utan. Doktorsnemar við HR eru um 40 talsins og stunda rannsóknir við allar fjórar akademískar deildir háskólans.

Catherine Elisabet Blatt er formaður nýja félagsins. Hún er sjálf doktorsnemi við viðskiptadeild og sinnir rannsóknum á sviði stjórnunarreikningsskila auk þess að vera stundakennari við deildina. „Okkur langaði að styrkja stöðu doktorsnema innan HR og þess vegna er félagið að einhverju leyti hagsmunafélag. Við erum í sérstakri stöðu þar sem við erum bæði starfsmenn og námsmenn.“

Fimm doktorsnemar standa í hóp fyrir framan jólatréð í SólinniStjórn nýja félagsins, frá vinstri: Shu Yang frá tækni- og verkfræðideild, Jordi Erwan Bieger frá tölvunafræðideild, Aldís Guðný Sigurðardóttir frá viðskiptadeild, Catherine Elisabet Batt frá viðskiptadeild og Hulda Kristín Magnúsdóttir, doktorsnemi við lagadeild.

Eitt af markmiðum félagsins er að gera doktorsnámið sýnilegra og styðja við þá fjölbreyttu möguleika sem felast í doktorsnámi og mikilvægi rannsókna fyrir samfélagið. „Það er bæði spennandi og gefandi að stunda rannsóknir á afmörkuðu áhugasviði, fyrir utan hversu miklu þessar rannsóknir skila til samfélagsins, meiru en maður gerir sér kannski grein fyrir. Allt sem við notum í daglegu lífi er tilkomið út af rannsóknum, öll tæki og tól sem fyrirtæki nota hafa verið þróuð á grunni vísinda. Á bak við bílana, eldavélina og fötin okkar eru margra ára rannsóknir. Svo má líka nefna aðferðir sem eru notaðar á afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins, eins og balanced scorecard, sem er tól sem er notað í rekstri í opinberri þjónustu og fyrirtækjum út um allan heim. Út úr doktorsrannsóknum kemur þekking sem er góð fyrir samfélagið og við viljum koma þessu mikilvægi rannsóknarstarfs okkar betur á framfæri.“ 

Catherine segir búið að mynda stjórn nýja félagsins og að fyrsti viðburðurinn á vegum þess verði haldinn í janúar. „Við ætlum að reyna að þjappa hópnum saman og kynnast betur okkar á milli.“ Allar fjórar akademískar deildir HR; lagadeild, viðskiptadeild, tölvunarfræðideild og tækni- og verkfræðideild, bjóða upp á doktorsnám.

Lesa um doktorsnám við HR