Fréttir eftir árum


Fréttir

Stúdentabraggi HR og nýsköpunar- og rannsóknasetur í Nauthólsvík

25.9.2015

Stúdentabraggi HRStjórn Stúdentafélags HR ásamt borgarstjóra og rektor.

Braggi frá stríðsárunum og tengdar byggingar í Nauthólsvík munu ganga í endurnýjun lífdaga sem félagsaðstaða fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og nýsköpunar- og rannsóknarsetur, samkvæmt samningi sem Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, skrifuðu undir í Nauthólsvík í dag.

Bragginn og sambyggð skemma voru byggð af Bretum og voru hluti af svokölluðu „hótel Winston“ á stríðsárunum en hafa síðustu ár legið undir skemmdum. Borgin hyggst ráðast í umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu, í samráði við stúdenta og Háskólann í Reykjavík sem síðan mun leigja húsnæðið fyrir sína starfsemi. 

Félagslíf og nýsköpun 

Stefnt er að því að nýting húsnæðisins verði tvíþætt.  Annars vegar verður félagsaðstaða og veitingasala á vegum stúdenta við HR.  Hins vegar verður sköpuð aðstaða fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki sem verða til innan HR og meðal samstarfsaðila. Alls er húsnæðið um 450 fermetrar og stefnt er að því að taka fyrsta hluta þess í notkun strax næsta vor.

„Háskólinn í Reykjavík leggur mikla áherslu á nýsköpun og meðal nemenda og starfsmanna verða reglulega til ný og spennandi fyrirtæki sem þarf að hlúa að. Í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg ætlum við að búa til einstaka aðstöðu til að koma slíkum fyrirtækjum af stað. Aðstaðan mun einnig nýtast nemendum sem vinna að fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum innan háskólans í samstarfi við  fyrirtæki. Þetta er hluti af metnaðarfullum áætlunum okkar um að byggja upp nýsköpunargarð að erlendri fyrirmynd við Háskólann í Reykjavík, með aðstöðu fyrir fjölbreytt nýsköpunarverkefni og framsækin fyrirtæki sem vilja njóta góðs af nálægð við stærsta tækni- og viðskiptaháskóla landsins,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, við undirskriftina í dag.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sagði: „Þetta er enn eitt jákvætt skref í samstarfi borgarinnar og Háskólans í Reykjavík. Þetta verkefni snýr beint að stúdentum og því að skapa skemmtilegt námsumhverfi en það snýst einnig um að skapa aðstöðu fyrir nýsköpunarhugmyndir sem er kjarnaþáttur í starfsemi Háskólans í Reykjavík. Ástæðan fyrir því að borgin vill leggja þessu lið er að við viljum að borgin sé spennandi staður, þar sem verða til nýjar hugmyndir og ný fyrirtæki og þetta verkefni passar mjög vel inn í þá mynd.“

Stúdentar hæstánægðir

Elísabet Erlendsdóttir, formaður stúdentafélags HR, sagði við undirskriftina: „Við erum hæstánægð með þetta skref hjá háskólanum og Reykjavíkurborg enda mikil eftirspurn frá nemendum skólans eftir aðstöðu fyrir félagsstarf og staðsetningin er alveg frábær. Eins með nýsköpunarsetrið, það er algjörlega í takt við stefnumál Stúdentafélags HR og við höfum fulla trú á að það skapi enn fleiri öflug tækifæri fyrir nemendur skólans í frumkvöðlastarfsemi.“