Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Hljóta styrk frá ESB til að auka frumkvöðlastarfsemi í Suður Afríku, Filippseyjum og Indónesíu

24.2.2017

Rannsóknarmiðstöð Háskólans í Reykjavík í nýsköpun og frumkvöðlafræðum hefur fengið styrk frá Evrópusambandinu vegna tveggja samstarfsverkefna sem ganga út á að auka frumkvöðlafærni, útbreiðslu og sýnileika frumkvöðlastarfsemi í þremur nýiðnvæddum löndum: Suður Afríku, Filippseyjum og Indónesíu.

Um er að ræða þriggja ára verkefni sem unnin eru í samstarfi við um 20 aðra háskóla í Evrópu og í löndunum þremur. Heildarstyrkurinn nemur tveimur milljónum evra, eða um 240 milljónum íslenskra króna. Meðal samstarfsskóla í verkefnunum eru Glasgow Caledonian University, Roskilde University, Nelson Mandela University í S-Afríku, University of Asia and the Pacific á Filippseyjum og University of Indonesia í Indónesíu.

„Verkefnin skapa vettvang bæði til þess að rannsaka frumkvöðlastarfsemi í menningarheimum sem eru mjög ólíkir okkar og einkennast af mjög hraðri þróun og vexti - og ekki síður til þess að láta gott af okkur leiða“, segir Marina Candi, dósent við viðskiptadeild HR, sem stýrir báðum verkefnunum. Auk hennar tekur Hallur Sigurðarson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR, þátt í verkefnunum.

Marina Candi skrifar með tússi á glervegg og horfir brosandi í myndavélinaMarina er forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar í nýsköpun og frumkvöðlafræðum, RU Centre for Research on Innovation and Entrepreneurship (CRIE), sem starfrækt er innan viðskiptadeildar HR. Innan setursins er skoðuð stofnun nýrra fyrirtækja á Íslandi, vöxtur þeirra og frammistaða.Miðstöðin hefur á síðustu 11 árum lagt viðamikla könnun fyrir stjórnendur nýsköpunarfyrirtækja og þannig tekist að fylgjast með um 200 nýjum íslenskum fyrirtækjum og þar með skapa verðmætan þekkingargrunn.

Vefur rannsóknarmiðstöðvar í nýsköpun og frumkvöðlafræðum við HR