Fréttir eftir árum


Fréttir

Sveinn Viðar Guðmundsson nýr forseti viðskiptadeildar

1.9.2020

Dr. Sveinn Viðar Guðmundsson hefur tekið við stöðu prófessors og deildarforseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

Maður stendur við handrið í Sólinni

Sveinn hefur frá árinu 2000 starfað við hinn virta Toulouse Business School (TBS) í Frakklandi, fyrst sem dósent og síðar sem prófessor í stefnumótun og forstöðumaður rannsóknamiðstöðvar fyrir hagrannsóknir og stjórnun í flug- og geimgeiranum. Þar stýrði hann einnig námi í stefnumótun, samstarfi fyrirtækja og stefnumótandi framsýni innan MBA-námsbrautarinnar.

Hann hefur einnig unnið sem sérfræðingur í mati rannsókna hjá rannsóknarrammaáætlunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (Joint Undertaking, FP5 og FP7) og í stefnumótandi framsýni hjá SSEE Oxford University, samtökum fyrirtækja í flugvéla- og hergagnaframleiðslu (ASD), og Umhverfisstofnun Evrópu.

Áður en hann hóf störf hjá TBS var hann við háskólann í Maastricht þar sem hann sat í deildarráði hagfræði- og viðskiptadeildar og kenndi við stefnumótunardeildina undir forystu Prófessors John Hagedoorn, þar áður var hann dósent (Principal Lecurer) við London Guildhall University, þar sem hann þróaði og stýrði meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og samgöngum.

Sveinn lauk doktorsnámi í stjórnunarfræði með áherslu á flugmál frá Cranfield University árið 1996. Hann lauk MBA og MSc námi í kerfisfræði frá Florida Institute of Technology árið 1987 og BSc námi í stjórnunarfræði á sviði flugmála árið 1985 frá sama skóla.

Sveinn hefur birt fjölda vísindagreina og ritstýrt fjölda sérrita á sínu sviði og hlotið viðurkenningar fyrir kennslu, rannsóknir og störf í þágu alþjóðlegra rannsókna. Hann ritstýrir Journal of Air Transport Management (Elsevier) og er í ritstjórnum fjögurra annarra vísindatímarita.

Hann hlaut rannsóknarstyrk og var gestarannsakandi við Smith School of Enterprise and the Environment (SSEE), Oxford háskóla skólaárið 2008 til 2009, undir forystu Professors Sir David King, og hlaut IRCA styrk við The University of Sydney Business School skólaárið 2013 til 2014. Sveinn hefur kennt námskeið sem gestakennari við Oxford háskóla, EOI-Madríd og Sevilla, hjá IAS Toulouse (námskeið fyrir flug- og geimfyrirtæki) og Southampton Business School.

Sveinn var prófdómari við Cranfield háskóla, meðlimur í ráðgjafarnefnd Rannsóknamiðstöðvar ICCSAI við háskólann í Bergamo og í alþjóðlegri nefnd um mat á rannsóknum í viðskiptum-og hagfræði við háskólann í Antwerpen.

Rannsóknaráhugi hans er fyrst og fremst tengdur stefnumótun lággjaldafyrirtækja, hlutdrægni í ákvörðunarferlum stjórnenda, samstarfi- samruna og yfirtöku fyrirtækja, gerð spálíkana fyrir afkomu fyrirtækja, og stefnumótandi framsýni fyrirtækja og stofnana í tengslum við sjálfbærni og vöruþróun.