Fréttir eftir árum


Fréttir

Sýndu fram á hvernig má nýta gervigreind í heilbrigðiskerfinu

2.10.2017

Fjölmargir háskólanemar tóku þátt í verkkeppni Viðskiptaráðs Íslands sem haldin var nýlega í tilefni af 100 ára afmæli samtakanna. Yfirskrift keppninnar var „Hvernig verður Ísland tæknivæddasta land í heimi árið 2030?“ Lið sem skipað var nemendum Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík varð hlutskarpast og hlaut hópurinn viðurkenningu á hátíðarathöfn þann 21. september sl. 

Alls tóku 11 lið þátt og keppendur voru samtals 50. Liðin settu fram nýstárlegar hugmyndir um framtíðarmöguleika í atvinnulífinu hér á landi, til dæmis með tillögum að „þythylkjum“, forriti til að aðstoða við tungumálakennslu og íslensku „skýi“. 

Liðið sem sigraði í Verkkeppninni er skipað þeim Daníel Alexanderssyni, Viðari Róbertssyni, Davíð Þór Jónssyni og Vilhjálmi Pálmasyni, sem eru á sjötta ári í læknisfræði við HÍ, og Alexander Jósep Blöndal sem er nemi í hugbúnaðarverkfræði við HR. Þeir sýndu fram á hugsanleg not gervigreindar í heilbrigðiskerfinu með því markmiði að koma í veg fyrir sjúkdóma og spara fjármuni. Fimmmenningarnir munu á næstunni leggja land undir fót og heimsækja ýmis framsækin fyrirtæki Sílíkondal í Bandaríkjunum eins og Facebook, Google, Uber, NASA og Tesla.

Hópur manna stendur með blómvendi á sviðiVinningshafarnir í Verkkeppni Viðskiptaráðs frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík ásamt Ástu S. Fjeldsted, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra.