Fréttir eftir árum


Fréttir

Einföld ljósmeðferð getur nýst í baráttunni gegn einkennum þunglyndis hjá krabbameinssjúklingum

15.4.2016

Rannsókn sem dr. Heiðdís Valdimarsdóttir, prófessor við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, vinnur að við Mount Sinai-sjúkrahúsið í New York hefur hlotið athygli undanfarið vestan hafs. Rannsóknin sýnir virkni einfaldrar ljósmeðferðar við að draga úr þreytu og þunglyndi, en það er nokkuð sem margir krabbameinssjúklingar finna fyrir á meðan meðferð stendur. Heiðdís hefur stundað rannsóknir í heilsusálfræði síðastliðin 30 ár og hefur meðal annars kannað áhrif krabbameins á lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra. 

BN-NJ236_LIGHT0_12S_20160401165759

Meðferðin hefur marktæk áhrif

„Við erum búin að vinna að þessari rannsókn í þrjú ár núna. Við byrjuðum með frekar litla, svokallaða „pilot“-rannsókn og höfum verið að vinna í því að fá styrki til áframhaldandi rannsókna,“ segir Heiðdís. Í vefútgáfu Wall Street Journal í vikunni var fjallað ítarlega um rannsóknina sem Heiðdís vinnur að ásamt samstarfsfólki sínu við sjúkrahúsið. Prófanir í rannsókninni fóru þannig fram að þátttakendur sátu fyrir framan kassa með sterku, hvítu ljósi í hálftíma á dag í fjórar viku. Þátttakendur gátu sinnt öðru á meðan, eins og að horfa á fréttir eða lesa tölvupóstinn. Alls tóku 54 krabbameinssjúklingar þátt í rannsókninni. Um helmingur þeirra sátu við sterkt, hvítt ljós og helmingur við dauft, rautt ljós. Niðurstöðurnar voru þær að meðferð með hvítu ljósi hafði marktæk áhrif og dró úr einkennum þunglyndis. 

Reyna að koma lífsklukkunni í réttan takt  

„Nú förum við að rannsaka þetta út frá fleiri líffræðilegum breytum. Við munum skoða hvort hægt sé að koma jafnvægi aftur á lífsklukkuna (e. circadian rhythm) en hún virðist fara úr skorðum hjá þunglyndissjúklingum og getur gert það hjá krabbameinssjúklingum líka, bæði vegna meðferðarinnar og sjúkdómsins sjálfs.“ Hormón eins og kortisól, sem á að gefa okkur orku árla dags, virðist ekki vera í jafnvægi hjá þessum hópi. Dagsbirtan viðheldur eðlilegum takti lífsklukkunnar og líkur eru á að ljósameðferð geti hjálpað til við að halda réttum takti. 

Ljósið hefur jákvæð áhrif

Það hefur verið vitað í mörg ár að ljós getur nýst sem meðferð við til dæmis skammdegisþunglyndi, en þetta er fyrsta rannsóknin sem einblínir á krabbameinssjúklinga í þessu samhengi. Heiðdís hefur rannsakað svörun við slíkri ljósmeðferð hjá krabbameinssjúklingum sem þjást af þreytu og finna fyrir þunglyndiseinkennum og hún hefur jákvæð áhrif á báða hópa. Meðferðin gæti því nýst með hefðbundinni meðferð eins og sálfræðimeðferð. „Mig langar mikið til að gera rannsókn á þessu á Íslandi, ég held að það myndi nýtast mörgum í skammdeginu að fá slíka meðferð, ég tel að hún myndi geta átt þátt í að endurstilla lífsklukkuna hjá ótal landsmönnum.“ Styrkir hafa verið veittir frá Danmörku og Hollandi til rannsóknarinnar en Heiðdís er enn að bíða eftir grænu ljósi frá íslenskum styrktaraðilum. Hópurinn sem stendur að rannsókninni hefur jafnframt hlotið 3,4 milljón dollara styrk frá bandarísku krabbameinsstofnuninni (National Cancer Institute, NCI) til að gera frekari rannsóknir, nú með fleiri þátttakendum eða 200 talsins.

Heiðdís hefur meðal annars unnið með vísindamönnum við HR og nemendum við að þróa ákvörðunartæki á vefnum fyrir karlmenn sem hafa greinst með staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli.  Á myndinni er Heiðdís ásamt hópnum sem stendur að því verkefni, en viðtal við þau birtist í Tímariti HR árið 2014. 

Sjá Tímarit HR árið 2014 - umfjöllun um rannsókn Heiðdísar er á bls. 55