Fréttir eftir árum


Fréttir

Tæknismiðjur fyrir 400 nemendur í 15 skólum

20.11.2018

Nemendur í 5. bekk í 15 grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu sækja í vikunni tæknismiðjur í boði Skema við HR og Tækniskólans. Alls munu um 400 nemendur fá tækifæri til að taka þátt. Þjálfarar Skema og nemendur Tækniskólans sjá um kennsluna. Vinnustofurnar munu fara fram vikuna 19.- 23. nóvember í eftirfarandi skólum:

Kelduskóli, Húsaskóli, Öldutúnsskóli, Selásskóli, Snælandsskóli, Vogaskóli, Flataskóli, Austurbæjarskóli, Lágafellsskóli, Breiðholtsskóli, Víðistaðaskóli, Hólabrekkuskóli, Melaskóli, Sæmundarskóli og Háteigsskóli.

Í gær, mánudag, skemmtu 29 nemendur sér konunglega við að spila á ávaxtapíanó, spila tetris með teiknuðum örvum á blaði og nota ennið á samnemendum sínum sem trommur í Kelduskóla.

Taeknismidjur-SkemaHressir þjálfarar í kennslustofu í Kelduskóla í gær.

Tæknismiðjurnar eru samvinnuverkefni milli Háskólans í Reykjavík og Tækniskólans en með þátttöku í því vill HR leggja sitt af mörkum við uppbyggingu á tæknimenntun á öllum skólastigum, bæði fyrir nemendur og kennara. Háskólinn hefur staðið fyrir ótal átaksverkefnum sem miða að því að auka áhuga ungs fólks á tækninámi, eins og til dæmis Boxinu - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna og Stelpum og tækni. Í Skema við HR eru kennd skapandi tækninámskeið árið um kring fyrir yngstu aldurhópana.